Tíu nýir handhafar silfurmerkis Fjölnis
Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum voru veitt tíu ný silfurmerki til félagsmanna Fjölnis.
Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir „Silfurmerki félagsins er viðurkenning, sem veita má þeim, sem starfað hafa í stjórnum í 5 ár eða lengur, eða hafa með öðrum hætti unnið vel og dyggilega fyrir félagið. Merkið er einnig veitt fyrir sérstök íþróttaafrek.“
Ungmennafélagið Fjölnir óskar öllum silfurmerkishöfum innilega til hamingju!
Silfurmerki nr. 224 hlýtur Birkir Björnsson (íshokkídeild)
Birkir sat í stjórn Íshokkídeildarinnar í fjölda ára, eða frá þeim tíma þegar Björninn sameinaðist Fjölni.
Hann sat í stjórn á erfiðustu tímum sem íþróttahreyfingin hefur gengið í gegnum, þ.e. á Covid tímanum. Þá átti hann sinn þátt í því að halda deildinni á floti. Síðar hefur hann unnið mikilvægt starf innan stjórnarinnar og unnið að mörgum mikilvægustu verkum hennar.
Síðustu misseri hefur Birkir haft minni tíma en áður til að sinna stjórnarsetunni, en alltaf hefur verið hægt að leita til hans og hann hefur komið að málum með rólegum, yfirveguðum og skynsamlegum hætti.
Nú hefur Birkir sagt sig úr stjórn deildarinnar, en kemur áfram að starfinu sem liðstjóri Meistaraflokks karla, en því starfi hefur hann sinnt meðfram stjórnarsetu undanfarin ár.
Silfurmerki nr. 225 hlýtur Elín D. Guðmundsdóttir (íshokkídeild)
Elín hefur starfað fyrir íshokkídeildina svo lengi sem elstu menn muna.
Eins og flestir hóf hún störf þegar börnin hennar voru ung og æfðu hjá deildinni. Nú eru þau vaxin úr grasi og tekin að fljúga úr hreiðrinu. Þrátt fyrir það hefur Elín ekki getað slitið sig frá starfinu, þar sem hún brennur fyrir hokkíinu. Hún hefur setið fjölda ára í stjórn og síðustu tvö árin sem formaður deildarinnar. Hún er hafsjór fróðleiks og fátt sem hún veit ekki um sportið. Ef Elín veit það ekki, skiptir það ekki máli.
Nú hefur Elín vikið úr stjórn, en samt sem áður heyra núverandi stjórnendur reglulega í henni og geta alltaf leitað ráða hjá henni. Fyrrverandi og núverandi samstarfsfólk Elínar er henni ævarandi þakklátt fyrir hennar mikla framlag.
Silfurmerki nr. 226 hlýtur Hildur Dís Jónsdóttir Scheving (íshokkídeild)
Hildur hefur verið viðloðandi hokkísamfélagið í langan tíma, en tengdafaðir hennar var einn af stofnendum Bjarnarins, sem gekk inn í Fjölni árið 2018. Síðan synir hennar hófu að stunda íshokkí, um svipað leiti og þeir lærðu að ganga, hefur hún verið óþreytandi við að stuðla að framgangi íþróttarinnar. Hún var einn af stofnendum Foreldrafélags deildarinnar sem hefur t.d. haldið utan um ferðir, pantanir á keppnisfatnaði, æfingafatnaði, auglýsingavörum og fleiru. Hildur er óþreytandi við að aðstoða foreldra við allt sem viðkemur sportinu og til hennar hefur verið hægt að leita nánast á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Þá hefur hún starfað náið með meistaraflokki kvenna og fór t.d. með þeim í tvígang til Akureyrar þegar þær kepptu til Íslandsmeistara. Hildur situr nú í stjórn deildarinnar, annað árið í röð.

Silfurmerki nr. 227 hlýtur Erlingur Þorsteinsson (skákdeild)
Erlingur Þorsteinsson hefur átt sæti í stjórn Skákdeildar Fjölnis í tæp 20 ár. Á þessu tímabili hefur hann einnig verið virkur skákmaður og styrkt A og B sveitir skákdeildarinnar. Það sem einkennir störf Erlings eru jákvæðni, góð samskipti og óskipt hvatning til annarra liðsmanna. Erlingur hefur lengst af gegnt embætti varaformanns skákdeildarinnar. Á síðasta aðalfundi skákdeildarinnar í mars sl. var ákveðið að efla hlutverk yngri félaga og Erlingur kosinn í embætti ritara og Dagur Ragnarsson kjörinn varaformaður. Aukin ábyrgð færð á hendur þeirra sem við stofnun skákdeildarinnar voru rétt komnir á grunnskólaaldur en eru nú í afrekshópi íslenskra skákmanna.
Erlingur fylgist vel með öllu sem er að gerast í skáklistinni, bæði hérlendis og erlendis. Hann vill sannarlega láta gott af sér leiða og hefur tekist það ágætlega með starfi sínu fyrir Skákdeild Fjölnis.
Silfurmerki nr. 228 hlýtur Gunnar Traustason (listskautadeild)
Gunnar Traustason hefur setið í stjórn listskautadeildar í þrjú ár, 2021-2023. Hann gegndi hlutverki gjaldkera og formanns og síðast meðstjórnanda. Hann hefur einnig verið virkur sjálfboðaliði í fjölda ára fyrir þann tíma m.a. í stjórn Bjarnarins áður en listskautadeildin sameinaðist Fjölni. Gunnar og frú bjóða sig alltaf fram sama hvað er á dagskrá en þá má nefna t.d sjálfboðaliðastarf við mótahald, sýningar og fjáranir. Hann stekkur til og hjálpar og sinnir þeim hlutverkum sem þarf að sinna.

Silfurmerki nr. 229 hlýtur Waleska Giraldo (listskautadeild)
Waleska Giraldo sat í stjórn listskautadeildar í þrjú ár, meðstjórnandi árið 2020 og síðan formaður 2021-2022. Eftir það hefur Waleska verið mikilvægur sjálfboðaliði fyrir listskauta með því að sitja sem tæknimaður hjá dómurum á mótum (calc and technical support) auk þess að sinna hinum ýmsu hlutverkum.
Silfurmerki nr. 230 hlýtur Tinna Arnardóttir (listskautadeild)
Tinna Arnardóttir byrjaði eins og svo margir aðrir sem sjálfboðaliði í foreldrafélagi listskautadeildarinnar. Síðan sat hún í stjórn listskautadeildar í tvö ár 2022-2023 en er nú varamaður í aðalstjórn Fjölnis. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt hinum ýmsu hlutverkum og ómetanlegt að hafa hana og Gísla manninn hennar ávalt til taks.
Silfurmerki nr. 231 hlýtur Halldóra Hrund Guðmundsdóttir (listskautadeild)
Halldóra Hrund Guðmundsdóttir er núna formaður listskautadeildar Fjölnis. Á síðustu árum hefur hún verið öflugur sjálfboðaliði fyrir félagið en einnig stokkið til þegar önnur skautafélög hafa leitað eftir aðstoð á mótum. Hún gengur rösk til allra verka sem þarf að sinna og er lykilmaður í að tryggja að verkefni stjórnarinnar gangi smurt fyrir sig.
Silfurmerki nr. 232 hlýtur Freydís Aðalbjörnsdóttir (handknattleiksdeild)
Freydís hóf að starfa í foreldraráði í handknattleik strax þegar dætur þeirra hjóna byrjuðu að æfa handbolta veturinn 2015-16 og átti hún sæti í foreldraráðum allt til ársins 2024. Fljótlega byrjaði hún einnig að aðstoða fyrir leiki meistaraflokks karla með því að græja veitingar sem að leikmönnum var boðið upp á eftir leikina. Síðustu ár hefur hún svo ásamt fjölskyldu sinni í raun séð alfarið um rekstur sjoppu og miðasölu á öllum heimaleikjum meistaraflokkana. Auk þess að aðstoða BUR á öllum yngri flokka mótum sem haldin hafa verið síðustu 9 ár sem og vorhátíð og annað sem BUR hefur komið að.
Það er því óhætt að segja að Freydís hefur í mörg ár verið einn öflugasti sjálfboðaliði handknattleiksdeildar og henni er fátt óviðkomandi. Ja, nema kannski að sitja í stjórn deildarinanr – hún lét hins vegar kjósa manninn sinn hann Róbert í stjórn að honum fjarstöddum fyrir cirka 10 árum síðan.
Freydís er dugnaðarforkur og það þyrftu helst allar deildir að hafa eina Freydísi í sínum röðum.
Silfurmerki nr. 233 hlýtur Elísa Kristmannsdóttir (aðalstjórn)
Elísa hóf líkt og svo margir aðrir sín störf fyrir félagið í foreldraráðum yngri flokka í knattspyrnu og oft voru það fjármálin og fjáraflanir flokkana sem hún hélt utan um. Síðar átti Elísa sæti í stjórn knattspyrnudeildar og þá um tíma sem gjaldkeri. Elísa tók svo sæti í aðalstjórn félagsins árið 2016 og sat í stjórn í fimm ár eða til ársins 2021.
Aðalstjórn þakkar Elísu kærlega fyrir hennar góðu störf í þágu félagsins.
Aðalfundur Ungmennafélagsins Fjölnis
Aðalfundur Fjölnis fer fram þriðjudaginn 8. apríl kl. 17:00. Fundurinn verður í Miðjunni, félagsaðstöðu Fjölnis í Egilshöll.
Framboð til stjórnar þarf að berast til gudmundur@fjolnir.is eigi síðar en 3. apríl.
Tillögur til breytinga á lögum félagsins, undirritaðar af flutningsmönnum, skulu sendar aðalstjórn félagsins eigi síðar en 3. apríl.
Tillögur að lagabreytingum munu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.
Dagskrá aðalfundar verður:
a) Skýrsla stjórnar
b) Reikningar félagsins
c) Lagabreytingar
d) Kjör formanns
e) Kjör stjórnarmanna
f) Kjör skoðunarmanna reikninga
g) Önnur mál
8. grein
Stjórn félagsins er skipuð sjö mönnum og allt að tveimur til vara. Kosning til stjórnar skal fara þannig fram:
a) kosning formanns til eins árs,
b) kosning sex meðstjórnenda til tveggja ára, þannig að þrír eru kosnir á hverju ári,
c) kosning tveggja manna í varastjórn til eins árs.
Varamenn taka sæti í stjórn ef aðalmaður forfallast í sömu röð og þeir eru kosnir. Bjóði meðstjórnandi sig fram til formanns áður en kjörtímabili hans líkur, tekur varamaður sæti í stjórn fram að næsta aðalfundi.
Allir félagsmenn félagsins sem eru fjárráða geta boðið sig fram til formanns. Formaður félagsins getur ekki samtímis verið formaður deildar. Tilkynningar um framboð til formanns og meðstjórnenda félagsins skulu berast framkvæmdarstjóra félagsins minnst 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund.
Formaður er kosinn beinni kosningu á aðalfundi, en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Stjórn fer með umboð og vald aðalfundar á milli aðalfunda án heimildar til lagabreytinga.
Á aðalfundi skulu einnig kosnir tveir skoðunarmenn reikninga en í þeirra stað má kjósa einn löggiltan endurskoðanda.
Lög Fjölnis má finna hér:
https://fjolnir.is/felagid-okkar/log-felagsins/
Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆
Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆
Leikur 4 – Skautafélag Akureyrar vs. Fjölnir, þriðjudagur 19. mars kl. 19:30
Lokastaða: Fjölnir 2 – 1 Skautafélag Akureyrar
Fjölnir tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna annað árið í röð með frábærum 2-1 sigri á Skautafélagi Akureyrar á útivelli. Liðið vann úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði innilega eftir erfiða og spennandi rimmu.
Frá upphafi var ljóst að SA ætlaði sér sigur og settu þær mikla pressu á vörn Fjölnis. Sóknaraðgerðir heimaliðsins voru beittar, en Fjölnir sýndi styrk sinn í varnarleiknum. Hvort sem það voru skot sem leikmenn blokkuðu eða stórkostlegar markvörslur Karítasar Halldórsdóttur, tókst Fjölni að halda markinu hreinu í fyrsta leikhluta.
Þrátt fyrir yfirburði SA í upphafi var það Fjölnir sem náði að opna leikinn á 18. mínútu. Hilma Bergsdóttir vann pökkinn af varnarmanni SA og skoraði án stoðsendingar, nokkuð gegn gangi leiksins. Fjölnir fór því með 1-0 forystu inn í fyrsta leikhlé.
Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn nokkuð og bæði lið fengu góð færi. Á 37. mínútu jók Fjölnir forskot sitt þegar Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði eftir mikið kapphlaup fyrir framan mark SA. Laura Ann Murphy og Elín Darkoh lögðu upp markið og Fjölnir var komið í vænlega stöðu, 2-0.
Þriðji leikhluti hófst með mikilli ákefð frá SA, og sex mínútum inn í lotuna tókst Önnu Sonju Ágústsdóttur að koma heimaliðinu inn í leikinn með marki. SA setti allt í sölurnar í lokin og sótti af krafti, en Fjölnir hélt út með sterkan varnarleik og kláraði leikinn með 2-1 sigri.
Með þessum sigri vann Fjölnir úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum annað árið í röð. Frábær liðsheild, skipulagður varnarleikur og öflug frammistaða í lykilaugnablikum tryggðu titilinn.
Skot á mark í leik #4
Fjölnir: 25
SA: 21
Ungmennafélagið Fjölnir óskar ykkur innilega til hamingju með vel verðskuldaðan titil! Þið eruð snillingar!! 💕
Sumarstörf Fjölnis fyrir 17-25 ára

Við höfum opnað fyrir umsóknir í sumarstörf Fjölnis 2025 fyrir 17-25 ára!
Við bjóðum upp á fjölbreytt störf fyrir 17-25 ára. Í boði er að vinna á íþróttasvæðinu í Dalhúsum, á sumarnámskeiðum deilda ásamt fjölgreinanámskeiði félagsins. Umsækjendur geta hakað við það starf sem þeir óska eftir, það er í boði að velja fleiri en eitt starf, t.d. að starfa á knattspyrnu- og listskautanámskeiðum.
Vinnutímabil fyrir 17-25 ára fer eftir nánara samkomulagi þegar ráðning liggur fyrir.
Sækja þarf um hér: https://forms.office.com/e/xQW1FM2gv5
Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Hinu Húsinu hér: https://jobs.50skills.com/reykjavik/is/34337
Laun eru greidd út samkvæmt kjarasamningum Reykjavíkurborgar.
Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjölnis á sumarnamskeid@fjolnir.is.
Umsóknarfrestur er til 18. apríl
Öllum umsóknum verður svarað.
*Umsóknir fyrir sumarstörf fyrir unglinga hjá Vinnuskólanum opna á næstu dögum!
#FélagiðOkkar
Frábær frammistaða í fyrsta leik úrslitakeppninnar
MFL Kvenna með sannfærandi sigur í fyrsta úrslitaleiknum
Meistaraflokkur kvenna í íshokkí spilaði sinn fyrsta leik í á þriðjudaginn í Egilshöll gegn Skautafélagi Akureyrar í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Úrslitin ráðast í einvígi þar sem fyrsta liðið til að vinna þrjá leiki sigrar titilinn.
Liðið tryggði sér öruggan 5-0 sigur í þessum fyrsta leik úrslitakeppninnar gegn SA.
Lykilmenn og frammistaða:
- Fyrsta sóknarlínan var áberandi í sóknarleiknum og kom við sögu í öllum fimm mörkum liðsins.
- Framherjinn Berglind Leifsdóttir átti frábæran leik og lagði sitt af mörkum í öllum mörkunum með 2 mörk og 3 stoðsendingar.
- Markvörðurinn Karitas Sif Halldórsdóttir hélt hreinu með yfirvegaðri og traustri frammistöðu í markinu.
Liðsframmistaða: Liðið spilaði skipulagðan varnarleik og stjórnaði svæðinu fyrir framan markið vel. Þessi agi í vörninni gerði liðinu kleift að snúa hratt í sókn, skapa góðar sendingaleiðir og veita sterkari stuðning í sóknaraðgerðum. Ákvarðanataka var góð allan leikinn, sem skilaði sér í árangursríkri spilamennsku á öllum svæðum íssins.
Skot á mark:
Fjölnir: 23
SA: 12
Frábær byrjun á úrslitaeinvíginu og nú er markmiðið að viðhalda þessum gæðum í næsta leik.
Næstu leikir:
- Úrslit #2 í Akureyri á fimmtudag kl. 19:30
- Úrslit #3 í Egilshöll á laugardag kl. 17:00
- Möguleg úrslit #4 í Akureyri á þriðjudag í næstu viku kl. 19:30
- Möguleg úrslit #5 í Egilshöll á fimmtudag í næstu viku kl. 19:45
Fjölnir Bikarmeistarar í listskautum!
Fjölnir deildarmeistari í Toppdeild kvenna
Kvennalið Fjölnis deildarmeistari í Toppdeild kvenna
Um nýliðna helgi tryggði kvennalið Fjölnis sér deildarmeistaratitilinn í Toppdeild kvenna með 1-0 sigri á kvennaliði Skautafélags Akureyrar. Með þessum sigri komst Fjölnir í 31 stig og gerði þar með út um möguleika SA á að ná toppsætinu.
SA hefði þurft að sigra Fjölni um helgina og einnig vinna Skautafélag Reykjavíkur í síðasta leik deildarkeppninnar til að eiga möguleika á efsta sætinu. Með sigrinum tryggðu Fjölnis-konur sér einnig heimaleikjarétt í úrslitakeppni Toppdeildar kvenna.
Úrslitakeppni kvenna hefst 11. mars næstkomandi, og ljóst er að Fjölnir fer inn í keppnina með mikinn kraft og sjálfstraust eftir glæsilega deildarkeppni.
Fjölnir óskar leikmönnum, þjálfurum og öllum sem komu að liðinu innilega til hamingju með árangurinn!
Skákdeild Fjölnis Íslandsmeistari félagsliða 2025
Skákdeild Fjölnis Íslandsmeistari félagsliða 2025 – Fullt hús stiga annað árið í röð!

Íslandsmóti skákfélaga lauk um helgina og skákdeild Fjölnis tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Úrvalsdeild með yfirburðum. Fjölnismenn unnu allar tíu viðureignir sínar í mótinu og hlutu fullt hús stiga, 20 stig, líkt og í fyrra. Þetta er annað árið í röð sem Fjölnir fer ósigrað í gegnum Úrvalsdeildina.
Yfirburðir á öllum borðum
Fjölnismenn sýndu styrk sinn í hverri viðureign og voru ávallt skrefi á undan andstæðingum sínum. Liðið skipuðu okkar sterkustu skákmenn, sem allir lögðu sitt af mörkum til sigursins.
Ótrúlegur árangur Fjölnis
Það er ljóst að skákdeild Fjölnis hefur byggt upp afar sterkt lið sem hefur sett mark sitt á íslenska skáksenu. Að vinna Íslandsmeistaratitilinn með fullt hús stiga tvö ár í röð er afrek sem fá lið hafa náð.
Við óskum ykkur innilega til hamingju með þennan magnaða árangur!