Tíu nýir handhafar silfurmerkis Fjölnis

Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum voru veitt tíu ný silfurmerki til félagsmanna Fjölnis.

Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir „Silfurmerki félagsins er viðurkenning, sem veita má þeim, sem starfað hafa í stjórnum í 5 ár eða lengur, eða hafa með öðrum hætti unnið vel og dyggilega fyrir félagið. Merkið er einnig veitt fyrir sérstök íþróttaafrek.“

Ungmennafélagið Fjölnir óskar öllum silfurmerkishöfum innilega til hamingju!

 

Silfurmerki nr. 224 hlýtur Birkir Björnsson (íshokkídeild)

Birkir sat í stjórn Íshokkídeildarinnar í fjölda ára, eða frá þeim tíma þegar Björninn sameinaðist Fjölni.

Hann sat í stjórn á erfiðustu tímum sem íþróttahreyfingin hefur gengið í gegnum, þ.e. á Covid tímanum. Þá átti hann sinn þátt í því að halda deildinni á floti. Síðar hefur hann unnið mikilvægt starf innan stjórnarinnar og unnið að mörgum mikilvægustu verkum hennar.

Síðustu misseri hefur Birkir haft minni tíma en áður til að sinna stjórnarsetunni, en alltaf hefur verið hægt að leita til hans og hann hefur komið að málum með rólegum, yfirveguðum og skynsamlegum hætti.

Nú hefur Birkir sagt sig úr stjórn deildarinnar, en kemur áfram að starfinu sem liðstjóri Meistaraflokks karla, en því starfi hefur hann sinnt meðfram stjórnarsetu undanfarin ár.

 

Silfurmerki nr. 225 hlýtur Elín D. Guðmundsdóttir (íshokkídeild)

Elín hefur starfað fyrir íshokkídeildina svo lengi sem elstu menn muna.

Eins og flestir hóf hún störf þegar börnin hennar voru ung og æfðu hjá deildinni. Nú eru þau vaxin úr grasi og tekin að fljúga úr hreiðrinu. Þrátt fyrir það hefur Elín ekki getað slitið sig frá starfinu, þar sem hún brennur fyrir hokkíinu. Hún hefur setið fjölda ára í stjórn og síðustu tvö árin sem formaður deildarinnar. Hún er hafsjór fróðleiks og fátt sem hún veit ekki um sportið. Ef Elín veit það ekki, skiptir það ekki máli.

Nú hefur Elín vikið úr stjórn, en samt sem áður heyra núverandi stjórnendur reglulega í henni og geta alltaf leitað ráða hjá henni. Fyrrverandi og núverandi samstarfsfólk Elínar er henni ævarandi þakklátt fyrir hennar mikla framlag.

 

Silfurmerki nr. 226 hlýtur Hildur Dís Jónsdóttir Scheving (íshokkídeild)

Hildur hefur verið viðloðandi hokkísamfélagið í langan tíma, en tengdafaðir hennar var einn af stofnendum Bjarnarins, sem gekk inn í Fjölni árið 2018. Síðan synir hennar hófu að stunda íshokkí, um svipað leiti og þeir lærðu að ganga, hefur hún verið óþreytandi við að stuðla að framgangi íþróttarinnar. Hún var einn af stofnendum Foreldrafélags deildarinnar sem hefur t.d. haldið utan um ferðir, pantanir á keppnisfatnaði, æfingafatnaði, auglýsingavörum og fleiru. Hildur er óþreytandi við að aðstoða foreldra við allt sem viðkemur sportinu og til hennar hefur verið hægt að leita nánast á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Þá hefur hún starfað náið með meistaraflokki kvenna og fór t.d. með þeim í tvígang til Akureyrar þegar þær kepptu til Íslandsmeistara. Hildur situr nú í stjórn deildarinnar, annað árið í röð.

 

Helgi Árnason, formaður skákdeildar, tekur við silfurmerkinu fyrir hönd Erlings

Silfurmerki nr. 227 hlýtur Erlingur Þorsteinsson (skákdeild)

Erlingur Þorsteinsson hefur átt sæti í stjórn Skákdeildar Fjölnis í tæp 20 ár. Á þessu tímabili hefur hann einnig verið virkur skákmaður og styrkt A og B sveitir skákdeildarinnar. Það sem einkennir störf Erlings eru jákvæðni, góð samskipti og óskipt hvatning til annarra liðsmanna. Erlingur hefur lengst af gegnt embætti varaformanns skákdeildarinnar. Á síðasta aðalfundi skákdeildarinnar í mars sl. var ákveðið að efla hlutverk yngri félaga og Erlingur kosinn í embætti ritara og Dagur Ragnarsson kjörinn varaformaður. Aukin ábyrgð færð á hendur þeirra sem við stofnun skákdeildarinnar voru rétt komnir á grunnskólaaldur en eru nú í afrekshópi íslenskra skákmanna.

Erlingur fylgist vel með öllu sem er að gerast í skáklistinni, bæði hérlendis og erlendis. Hann vill sannarlega láta gott af sér leiða og hefur tekist það ágætlega með starfi sínu fyrir Skákdeild Fjölnis.

 

Silfurmerki nr. 228 hlýtur Gunnar Traustason (listskautadeild)

Gunnar Traustason hefur setið í stjórn listskautadeildar í þrjú ár, 2021-2023. Hann gegndi hlutverki gjaldkera og formanns og síðast meðstjórnanda. Hann hefur einnig verið virkur sjálfboðaliði í fjölda ára fyrir þann tíma m.a. í stjórn Bjarnarins áður en listskautadeildin sameinaðist Fjölni. Gunnar og frú bjóða sig alltaf fram sama hvað er á dagskrá en þá má nefna t.d sjálfboðaliðastarf við mótahald, sýningar og fjáranir. Hann stekkur til og hjálpar og sinnir þeim hlutverkum sem þarf að sinna.

 

Halldóra Hrund Guðmundsdóttir, formaður listskautadeildar, tekur við silfurmerkinu fyrir hönd Walesku

Silfurmerki nr. 229 hlýtur Waleska Giraldo (listskautadeild)

Waleska Giraldo sat í stjórn listskautadeildar í þrjú ár, meðstjórnandi árið 2020 og síðan formaður 2021-2022. Eftir það hefur Waleska verið mikilvægur sjálfboðaliði fyrir listskauta með því að sitja sem tæknimaður hjá dómurum á mótum (calc and technical support) auk þess að sinna hinum ýmsu hlutverkum.

 

Silfurmerki nr. 230 hlýtur Tinna Arnardóttir (listskautadeild)

Tinna Arnardóttir byrjaði eins og svo margir aðrir sem sjálfboðaliði í foreldrafélagi listskautadeildarinnar. Síðan sat hún í stjórn listskautadeildar í tvö ár 2022-2023 en er nú varamaður í aðalstjórn Fjölnis. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt hinum ýmsu hlutverkum og ómetanlegt að hafa hana og Gísla manninn hennar ávalt til taks.

 

Silfurmerki nr. 231 hlýtur Halldóra Hrund Guðmundsdóttir (listskautadeild)

Halldóra Hrund Guðmundsdóttir er núna formaður listskautadeildar Fjölnis. Á síðustu árum hefur hún verið öflugur sjálfboðaliði fyrir félagið en einnig stokkið til þegar önnur skautafélög hafa leitað eftir aðstoð á mótum. Hún gengur rösk til allra verka sem þarf að sinna og er lykilmaður í að tryggja að verkefni stjórnarinnar gangi smurt fyrir sig.

 

Silfurmerki nr. 232 hlýtur Freydís Aðalbjörnsdóttir (handknattleiksdeild)

Freydís hóf að starfa í foreldraráði í handknattleik strax þegar dætur þeirra hjóna byrjuðu að æfa handbolta veturinn 2015-16 og átti hún sæti í foreldraráðum allt til ársins 2024. Fljótlega byrjaði hún einnig að aðstoða fyrir leiki meistaraflokks karla með því að græja veitingar sem að leikmönnum var boðið upp á eftir leikina. Síðustu ár hefur hún svo ásamt fjölskyldu sinni í raun séð alfarið um rekstur sjoppu og miðasölu á öllum heimaleikjum meistaraflokkana. Auk þess að aðstoða BUR á öllum yngri flokka mótum sem haldin hafa verið síðustu 9 ár sem og vorhátíð og annað sem BUR hefur komið að.

Það er því óhætt að segja að Freydís hefur í mörg ár verið einn öflugasti sjálfboðaliði handknattleiksdeildar og henni er fátt óviðkomandi. Ja, nema kannski að sitja í stjórn deildarinanr – hún lét hins vegar kjósa manninn sinn hann Róbert í stjórn að honum fjarstöddum fyrir cirka 10 árum síðan.

Freydís er dugnaðarforkur og það þyrftu helst allar deildir að hafa eina Freydísi í sínum röðum.

 

Silfurmerki nr. 233 hlýtur Elísa Kristmannsdóttir (aðalstjórn)

Elísa hóf líkt og svo margir aðrir sín störf fyrir félagið í foreldraráðum yngri flokka í knattspyrnu og oft voru það fjármálin og fjáraflanir flokkana sem hún hélt utan um. Síðar átti Elísa sæti í stjórn knattspyrnudeildar og þá um tíma sem gjaldkeri. Elísa tók svo sæti í aðalstjórn félagsins árið 2016 og sat í stjórn í fimm ár eða til ársins 2021.

Aðalstjórn þakkar Elísu kærlega fyrir hennar góðu störf í þágu félagsins.