Jón Karl Ólafsson er þriðji heiðursforseti Fjölnis

Aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn 8. apríl 2025 í Miðjunni í Egilshöll. Þar kom saman fjölmennur hópur félagsmanna. Á fundinum var tilkynntur þriðji heiðursforseti Fjölnis.

Í reglugerð um veitingu viðurkenninga segir um heiðursforseta: „Heiðursforseti félagsins er æðsta viðurkenning félagsins, sem veita má þeim einstaklingum, sem sinnt hafa formennsku í aðalstjórn félagsins í a.m.k. sjö ár, eða þeim einstaklingum sem þykja hafa unnið sérstaklega vel í málefnum félagsins um árabil. Tilnefningar um heiðursforseta þurfa að hafa stuðning a.m.k. 5 einstaklinga frá aðalstjórn og hið minnsta frá 3 deildum félagsins. Tilnefningar skulu berast skriflega til aðalstjórnar eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Tilnefningar skal bera undir sameiginlegan fund aðalstjórnar og formanna deilda félagsins og eru aðeins samþykktar ef a.m.k. 4/5 hluti þeirra sem mæta á fundinn eru sammála niðurstöðunni.”

Fundur fulltrúa aðalstjórnar með fulltrúum deilda var haldinn þann 2. apríl sl. þar sem tilnefningin var samþykkt samhljóða.

 

Þriðji heiðursforseti Fjölnis er Jón Karl Ólafsson

Jón Karl Ólafsson átti sæti í aðalstjórn Fjölnis í um 20 ár og þar af sem formaður aðalstjórnar frá árinu 2009 til ársins 2024. Fimmtán ár sem formaður í einu stærsta íþróttafélagi landsins er ærið langur tími og krefst mikillar fórnfýsi.

Jón Karl er einstakur maður sem gefur endalaust af sér til félagsmála en hann á alltaf tíma fyrir íþróttahreyfinguna og er boðinn og búinn í að leggja sína krafta og sitt af mörkum fyrir hana.

Við í Fjölnir vorum einstakleg heppinn að hann og fjölskylda hans fluttu í Grafarvoginn og að við skyldum hafa notið krafta hans í öll þessi ár. Jón Karl hefur lagt sig 100% fram um að hlúa að félaginu okkar og hefur alltaf verið klár í að leiða það áfram í gegnum súrt og sætt.

Aðstöðumál eru eitt af stóru verkefnunum hjá íþróttahreyfingunni og þar hefur Jón Karl ásamt Gumma framkvæmdastjóra og aðalstjórn félagsins keyrt hlutina áfram af miklum eldmóð og krafti sem hefur skilað okkur margbættri aðstöðu á undanförnum árum.

Jón Karl gekk í gegnum erfið veikindi á meðan hann stóð vaktina hjá okkur í Fjölni en hann sló ekkert af fyrir félagið og var aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hann tókst á við veikindin að æðruleysi og virðingu.

Jón Karl er drengur góður með stórt og hlýtt hjarta sem gefur sig allan í það sem hann tekst á við í lífinu, hann er góður fjölskyldumaður, félagi og vinur. Hann hefur komið að ófáum verkefnum innan íþróttahreyfingarinnar. Hann er einn þeirra sem kann ekki að segja nei og er alltaf tilbúinn að takast á við stór sem smá verkefni fyrir hreyfinguna hvort sem er fyrir Fjölnir, ÍBR, ÍSÍ eða UMFÍ.

Kærar þakkir fyrir allt þitt óeigingjarna starf fyrir félagið Jón Karl síðustu tvo áratugi.

Jón Karl hlaut gullmerki nr. 30 árið 2019 og er hér með þriðji heiðursforseti Fjölnis