Elísabet Ósk Guðmundsdóttir ráðin sem rekstrarstjóri fimleikadeildar Fjölnis

Fjölnir fagnar því að tilkynna að Elísabet Ósk Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sem rekstrarstjóri fimleikadeildar Fjölnis. Elísabet kemur inn með mikla reynslu í íþróttastjórnun og mun stýra rekstri deildarinnar til framtíðar.
Elísabet er með BA-gráðu í viðburða- og íþróttastjórnun. Hún hefur starfað hjá Knattspyrnusambandi Íslands sem verkefnastjóri kvennalandsliðsins, auk þess að hafa unnið hjá Ástralska sundsambandinu og öðrum íþróttasamtökum. Þar hefur hún m.a. unnið með landsliðum við skipulag og fararstjórn æfinga- og keppnisferða, auk annarra verkefna tengdum afreksíþróttafólki, skipulagi og stjórnun keppnismóta og annarra viðburða.
Með öflugan bakgrunn í íþróttastjórnun og rekstri mun Elísabet vinna að því að efla starfsemi fimleikadeildarinnar enn frekar. Markmiðið er að tryggja faglegt og öflugt skipulag innan deildarinnar, bæta aðstæður fyrir æfingar og keppnir og styðja við áframhaldandi vöxt fimleikanna innan Fjölnis.
Fimleikadeild Fjölnis hefur vaxið hratt á undanförnum árum og býður nú upp á þjálfun fyrir börn frá tveggja ára aldri, með æfingum sem fara fram í Egilshöll.
Fjölnir óskar Elísabetu til hamingju og velfarnaðar í nýju starfi!
#FélagiðOkkar 💛💙