Nýr handhafi Silfurmerkis Fjölnis: Sunna Rut Guðlaugardóttir
Sunna Rut er einn þeirra sem halda alltaf áfram í sportinu. Hún byrjaði sem agnarlítið spons fyrir um 12 árum, rétt 7 ára gömul að mæta á æfingar. Vann ötullega að því að bæta sig. Tók þátt í mótum og dró heim fullt af verðlaunapeningum. Vann sér inn Íslandsmeistaratitla, klifraði upp á verðlaunapall á RIG mótum að ótöldum auðvitað öllum hinum mótunum þar sem hún tók þátt og þurfti að klifra upp á verðlaunapall.
Því má ekki gleyma að hún hefur auðvitað líka verið valin karatekona ársins hjá Fjölni.
Í gegnum tíma sinn hjá Fjölni hefur hún aukið við þekkingu sína jafnt og þétt með því að ljúka hverri beltagráðuninni á fætur annari, nú síðast þegar hún lauk gráðun til 2. dans svartbeltisgráðun (Nidan) með miklum sóma.
Partur af því að æfa Karate er að gefa til baka til íþróttarinnar og félagsins sín. Þar lætur Sunna ekki sitt eftir liggja. Því hún er einnig vinsæll og óþreytandi þjálfari þeirra sem á eftir henni hafa komið. Auk þess að taka að sér liðsstjórastörf á mótum.
Sunnu var afhent Silfurmerki Fjölnis númer 215.
Mynd: Kristján U Kristjánsson