Fjölnir semur við Egil og Elvar
Handknattleiksdeild Fjölnis hefur skrifað undir tveggja ára samninga við tvo unga og efnilega leikmenn; Egil Val R. Michelsen og Elvar Þór Ólafsson. Báðir leikmennirnir voru hluti af frábærum árangri 3.flokks karla árið 2019 þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari.
Egill Valur er fæddur árið 2000 og er markvörður. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Egill leikið þrjú tímabil í meistaraflokki. Hann staldraði stutt við í Gróttu tímabilin 2016-2018 þar sem hlaut eldskírn sína með meistaraflokki, bæði í 2.deildinni og í Olísdeildinni. Undanfarin tvö árin hefur hann verið mikilvægur hlekkur í Fjölni U ásamt að hafa leikið þrjá leiki í Olísdeildinni með Fjölni í fyrra.
Elvar Þór er fæddur árið 2001 og getur spilað báðar skyttustöðurnar. Elvar hóf sinn meistaraflokkferil með Fjölni U í Grill 66-deildinni í fyrra. Þar skoraði hann þrjú mörk í fimm leikjum.
Guðmundur Rúnar Guðmundsson er ánægður með leikmennina og undirritun samninga við þá: „Egill og Elvar eru bráðefnilegir leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Þeir eru harðduglegir og munu uppskera samkvæmt því í vetur. Ég er ánægður með að þeir verði hjá okkur næstu tvö árin“.