Helgi Árnason fær fálkaorðuna
Helgi Árnason, formaður Skákdeildar Fjölnis og skólastjóri Rimaskóla, fékk afhenta fálkaorðuna, riddarakross úr hendi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar fyrir störf á vettvangi skóla og skáklistar. Athöfnin fór fram að Bessastöðum á þjóðahátíðardaginn 17. júní. Helgi hefur gegnt formennsku í Skákdeild Fjölnis frá stofnun deildarinnar árið 2004 og eflt starfsemina ár frá ári þannig að Fjölnir er í hópi þriggja sterkustu skákfélaga landsins. Helgi er því að mati skákmanna vel að þessum heiðri kominn. Hann hefur jafnhliða byggt upp afar öflugt skákstarf í Rimaskóla en skáksveitir skólans hafa m.a. unnið Norðurlandameistaratitil barna-og grunnskólasveita í sex skipti og mun það vera einsdæmi á Norðurlöndum. Úr Rimaskóla hafa komið sterkir skákmenn eins og Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari, Dagur Ragnarsson alþjóðlegur meistari, Oliver Aron Jóhannesson FIDE meistari og Nansý Davíðsdóttir landsliðskona í skák. Helgi hefur ávallt verið virkur skákhreyfingunni og sat samfellt í Stjórn Skáksambands Íslands í 10 ár og Skákakademíu Reykjavíkur frá stofnun árið 2008. Á 30 ára afmæli Fjölnis í febrúar 2018 var Helgi Árnason sæmdur gullmerki Fjölnis.
Við óskum Helga Árnasyni innilega til hamingju með þessa heiðursveitingu.