Frábær árangur hjá Degi Ragnarssyni
Dagur Ragnarsson (2327) náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum skákmeistaratitli með frábærri frammistöðu á alþjóðlegu skákmóti í Montreal í Kanada sem lauk í gær. Dagur hlaut 6½ vinning í 9 skákum. Dagur byrjaði afar vel og hafði 3½ vinning eftir 4 umferðir. Jafntefli gerði hann í 5.-8. umferð þar sem hann var oft á tíðum afar nærri því að vinna skákirnar. Sigur í lokaumferðinni á móti kanadíska FIDE-meistaranum Mike Ivanov (2251) tryggði honum áfangann. Frammistaða Dags samsvaraði 2467 skákstigum og hækkar hann um 34 ELÓ stig sem er óvenju mikið miðað við aðra stigaháa skákmenn. Eins og Grafravogsbúum ætti að vera kunnugt um þá var Dagur valinn afreksmaður skákdeildar fyrir árið 2018. Þetta er annar áfangi Dags en til þess að verða útnefndur alþjóðlegur meistari þarf hann þrjá áfanga og komast í 2400 skákstig. Þeim fyrsta náði hann í á Íslandsmótinu í skák 2017 í Hafnarfirði. Skákdeild Fjölnis óskar Degi hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og meistaraáfangann!