Fréttir yngri flokka
Mikið hefur verið um að vera hjá yngri flokkum deildarinnar síðustu helgar. Fjölliðamót HSÍ hófust í október og iðkendur hafa sýnt miklar framfarir og áhuginn eykst viku eftir viku.
BUR stóð fyrir átaki í yngri flokkum í samvinnu við frístundaheimili Grafarvogs, svokallað „frístundafjör“. Hátt í 200 börn í 1. og 2. bekk fengu að kynnast handbolta undir leiðsögn þjálfara deildarinnar og leikmanna meistaraflokkanna okkar.
Vinavikur fóru fram samhliða frístundafjöri og gafst það verkefni vel.
8. flokkur
Iðkendur í Egilshöll og Hamraskóla mættu með sameiginlegt lið á fyrsta mót vetrarins í Mosó. Miklar framfarir sáust á iðkendunum og stóðu þau sig mjög vel innan sem utan vallar. Við hvetjum alla áhugasama að kíkja á æfingu hjá Elínu og Berglindi 🙂
7. flokkur
Helgina 12. – 14. október fór fram fyrsta mótið í vetur hjá 7. flokki karla. Það var frábær þátttaka og alls tóku fjögur lið frá Fjölni þátt á mótinu. Öll liðin stóðu sig frábærlega og var spilamennskan þeirra til fyrirmyndar. Miklar framfarir sáust hjá leikmönnum á milli leikja.
Við í Fjölni eigum svo sannarlega framtíðarstjörnur í handbolta. Sömu helgi fór fram fyrsta mótið í vetur hjá 7. flokki kvenna. Stelpurnar stóðu sig heldur betur vel og eiga hrós skilið fyrir flotta spilamennsku.
Það er alltaf pláss fyrir fleiri stelpur og þess vegna hvetjum við allar stelpur til að koma á æfingu og prófa. Æfingarnar eru á þriðjudögum í Dalhúsum og föstudögum í Egilshöll. Báðar æfingarnar eru kl. 17:00-18:00.
6. flokkur karla
Í október fór fram fyrsta mótið í vetur hjá eldra árinu í 6. flokki karla. Strákarnir stóðu sig mjög vel á mótinu. Gaman var að sjá skemmtilegan karakter og flotta liðsheild hjá liðinu.
Liðið lék fjóra leiki um helgina, vann tvo og tapaði tveimur. Strákarnir munu því leika aftur i 2. deildinni á næsta móti.
Í byrjun október fór fram fyrsta mótið í vetur hjá yngra árinu í 6. flokki karla. Mótið var haldið á Akureyri. Strákarnir stóðu sig virkilega vel og kepptu í sterkum riðli. Ferðin var mjög skemmtileg og var meðal annars farið í sund, kíkt í jólahúsið og fór allur hópurinn út að borða á Greifann. Flottir strákar sem eiga framtíðina fyrir sér í handbolta.
Yngra árið í 6. flokki keppti á sínu öðru móti í vetur. Mótið fór fram í Valsheimilinu. Strákarnir stóðu sig mjög vel og unnu þeir þrjá leiki af fjórum. Vörnin og markvarslan var sérstaklega góð og allir strákarnir sýndu flotta takta í sóknarleiknum. Næsta mót strákanna er í febrúar.
6. flokkur kvenna
Stelpurnar í 6.fl kv eldri voru að spila á sínu fyrsta móti í Íslandsmótinu. Þær voru í 3. deild, spiluðu fjóra leiki og unnu fjóra. Þær sýndu mikla baráttu og leikgleði. Þær einbeita sér núna að næsta móti sem er í nóvember.
5. flokkur karla
Í október fór fram fyrsta mótið hjá 5. flokki karla yngri. Liðið endaði í 2. sæti í sinni deild og gat ágætlega vel við unað. Flottir strákar sem geta náð langt með áframhaldandi dugnaði
5. flokkur kvenna
Stelpurnar í 5. flokki eyddu seinustu helgi í Vestmannaeyjum að taka þátt í Eyjablikksmótinu. Þær stóðu sig frábærlega og þakka fyrir skemmtilegt mót.
Fleiri fréttir og myndir má nálgast á samfélagsmiðlunum okkar á FACEBOOK og INSTAGRAM