Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2021. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1992 og er stórskemmtileg og lífleg íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í afar fjölbreyttri dagskrá.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Á sama tíma er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna, mömmu og pabba og yngri systkinin og það kostar ekki krónu. Í ár geta 19 ára líka tekið þátt því mótinu í fyrra var frestað. Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli enda frábært fjölskyldu- og vinafjör þar sem allir mótsgestir fá að prófa nýjar og forvitnilegar greinar. Við hvetjum vinahópa og fjölskyldur til að fara saman á mótið. Búist er við gríðarlegum fjölda þátttakenda á þessu ári enda stutt af höfuðborgarsvæðinu á Selfoss.

Unglingalandsmót UMFÍ 2021 fer fram 29. júlí – 1. ágúst á Selfossi. Skráningargjald er 7.900 kr. Skráning hefst 1. júlí næstkomandi.

Mót fyrir alla fjölskylduna

Á Selfossi verður boðið upp á 24 stórskemmtilegar greinar. Þar á meðal eru knattspyrna, körfubolti og frjálsar íþróttir en líka aðrar nýlegri eins og strandhandbolta og standblak sem hafa slegið í gegn. Líka er hægt að skrá sig í hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, borðtennis, golf og glímu, kökuskreytingar, rafíþróttir og margar fleiri. Fatlaðir geta eins og á fyrri mótum tekið þátt í fjölda greina.

Þátttakendur greiða eitt verð en geta skráð sig í eins margar greinar og þau vilja. Inni í verðinu er aðgangur að tjaldsvæði en greiða þarf fyrir rafmagn.

Öll kvöld verða tónleikar með vinsælasta tónlistarfólki ungu kynslóðarinnar ásamt því sem upprennandi tónlistarfólk og hljómsveitir frá Suðurlandi stíga á stokk.

Búist er við þúsund mótsgesta á Selfossi um verslunarmannahelgina og er verið að útbúa risastórt tjaldsvæði við Suðurhóla í útjaðri bæjarins fyrir þátttakendur af öllu landinu. Svæðið er í göngufæri við mótssvæðið. Til að skapa frábæra stemningu og gæta öryggis þátttakenda og mótsgesta verður ákveðnum götum lokað í kringum nokkra viðburði á Selfossi.

Vefsíða mótsins er www.ulm.is


Fjölnishlaup Olís 2021

Hið árlega Fjölnishlaup Olís verður ræst í 33. sinn við Grafarvogslaug í Dalhúsum á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 11.

Eftirfarandi vegalengdir verða í hlaupinu:

  • 10 km hlaup
  • 5 km hlaup
  • 1,4 km skemmtiskokk

10 km hlaupið er hluti af Gatorade sumarhlaupunum.

Skráningargjöld

3.000 kr. í 10 km, 2.500 kr í 5 km í forskráningu á netskraning.is til miðnættis 16. júní. 1.000 kr í skemmtiskokkið – hámark 3.000 kr. á fjölskyldu.

Þátttakendur fá Gatorade í boði Ölgerðarinnar.

Fjöldi glæsilegra útdráttarverðlauna frá Olís.

Afhending gagna og skráning á staðnum verður frá kl. 18:00-20:00 þann 16. júní og á keppnisdag frá kl. 09:30-10:15 í anddyri Grafarvogslaugar í Íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum.

Nánari upplýsingar á netskraning.is og sumarhlaupin.is


Fjölmennt skákmót Fjölnis á sumardaginn fyrsta

Frábær þátttaka var á Sumarskákmóti Fjölnis í Rimaskóla þar sem 75 efnilegir skáksnillingar á grunnskólaaldri fögnuðu sumrinu við skákborðið.
Rótarýklúbbur Grafarvogs gaf líkt og áður alla verðlaunagripi á sumarskákmótið en alla vinninga og glaðning gáfu Hagkaup, EmmEssís, Pizzan, Bókabúð Grafarvogs, CoCo´s tískuverslun og Ekran.
Vegna fjölda þátttakenda og sóttvarnatakmarkanna var keppendum skipt á tvö svæði. Stúlknaflokkurinn alls 30 skádrottningar tefldi í fjölnýtistofu á meðan að  45 drengir kepptu í hátíðarsal skólans í eldri og yngri flokki.
Flestir þátttakendur voru frá Skákdeild Fjölnis en á meðal strákanna voru allir sterkustu skákmenn TR og Breiðabliks mættir.
Rimaskólastelpur hafa aldrei verið fjölmennari né beittari við skákborðið en núna í vetur og kom það greinilega í ljós á sumarskákmótinu þegar þær þær lentu í 10 af 11 efstu sætunum. Fjölnisstrákar höfðu minna að gera í gestina frá TR og Breiðablik og urðu að gefa þeim eftir efstu sætin.
Þeir Eiríkur Emil Hákonarson í eldri flokk og Kamil Roman Klimaszewski í yngri flokk stóðu sig best af Fjölnisstrákum en þær Hrafndís Karen Óskarsdóttir og Emilía Embla B. Berglindardóttir í hópi stúlkna.

Allir keppendur sem voru á aldrinum 6 – 16 ára gengu glaðir út í sumarið að loknu velheppnuðu skákmóti


Heimaleikjakortin eru komin í sölu

Heimaleikjakortin eru komin í sölu og þau eru öll rafræn. Hægt að ganga frá kaupunum með einföldum hætti í gegnum vefverslunina eða á fjolnir.is/arskort

Í boði eru þrjár tegundir:

  • Ungmennakort
    • Verð: 4.900 kr.
    • Gildir fyrir einn inn á völlinn. Aldur 16-25 ára
  • Árskort
    • Verð: 15.000 kr.
    • Gildir fyrir einn inn á völlinn
  • Gullkort
    • Verð: 25.000 kr.
    • Gildir fyrir einn inn á völlinn
    • Veitir aðgang að veitingum fyrir leik og í hálfleik

Öll heimaleikjakort eru rafræn og afhendast í gegnum appið Stubbur sem er sótt í símann.

Vekjum sérstaka athygli á ungmennakortinu sem er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára og er einstaklega góðu verði.
Kortin gilda á alla heimaleiki meistaraflokks karla og kvenna Fjölnis.

Samstaða er lykilatriði.

Eins og allir vita þá hafa verið uppi sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu um þessar mundir. Íþróttafélög eiga undir mikið högg að sækja og stór skörð eru höggin í tekjustofna þeirra. Fjölnir er þar engin undantekning. Til að mynda þá reiðir knattspyrnudeildin sig nær eingöngu á styrki og velvild fyrirtækja, einstaklinga, tekjur af ársmiðasölu og öðrum viðburðum.

Það er mikilvægt að Fjölnissamfélagið standi saman nú sem aldrei fyrr. Þau ykkar sem hafið tök á biðjum við vinsamlegast um að ganga frá kaupum á heimaleikjakorti við fyrsta tækifæri.

Takk fyrir þinn stuðning – hann skiptir máli!


Æfingar heimilar á ný

Uppfært 13.04.2021 kl. 20:30:

Stjórnvöld kynntu tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum á fundi sínum í dag sem taka gildi frá og með fimmtudeginum 15. apríl.

Nánar má lesa um aðgerðinar með því að smella HÉR.

Allt æfinga og mótahald er HEIMILT frá og með 15. apríl en í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins kemur m.a. fram að:

„Það er fagnaðarefni að fólk geti nú farið að reima á sig íþróttaskóna og finna til sundfötin – hreyfing er okkur gríðarlega mikilvæg og ég veit að margir eru mjög spenntir fyrir því að komast aftur á æfingar. Það er lýðheilsumál að halda Íslandi á hreyfingu og þó íþróttastarf verði ákveðnum takmörkunum háð áfram er þetta afar jákvætt skref.“ 

Hvaða þýðir þetta fyrir okkur?

• Íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar og hámarksfjöldi fullorðinna miðast við 50 manns en fjöldi barna við hliðstæðan fjölda í skólastarfi. Keppnir verða heimilar með allt að 100 skráðum áhorfendum. Sjá nánar HÉR.

Æfinga- og félagssvæði Fjölnis opnar fimmtudaginn 15. apríl. Æfingar fara fram samkvæmt stundatöflu nema annað sé tekið fram hjá deildunum.

#FélagiðOkkar


Hertar aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld kynntu stórhertar sóttvarnaraðgerðir á fundi sínum í Hörpu í gær sem tóku gildi á miðnætti og munu gilda í 3 vikur eða til og með 15. apríl næstkomandi.

Nánar má lesa um aðgerðinar með því að smella HÉR.

Allt æfinga og mótahald er óheimilt á þessu tímabili en fram kom í ræðu heilbrigðisráðherra að:

„Inni- og útiíþróttir verða óheimilar þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra bil milli fólks eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, sundstaðir verða lokaðir sem og líkamsræktarstöðvar. Sviðslistastarf verður óheimilt, bæði æfingar og sýningahald.“ 

Hvaða áhrif hafa þessar hertu aðgerðir á okkur?

Æfinga- og félagssvæði Fjölnis er lokað frá og með 25. mars og til og með 15. apríl.

Þetta nær yfir:

  • Æfinga- og keppnissvæði í og við Dalhús og Egilshöll
  • Skrifstofu Fjölnis og félagaðstöðu í Egilshöll

Við beinum því til þjálfara félagsins að hvetja iðkendur til að sinna æfingum heima, halda fjaræfingar og leggja fyrir verkefni til að stytta biðina. Við kunnum þetta.

Starfsfólk Fjölnis eru til taks á skrifstofunni fyrir félagsmenn sem þurfa að ná í eigur. Vinsamlega hafið samband við Guðmund á gummi@fjolnir.is eða Arnór á arnor@fjolnir.is.

#FélagiðOkkar


Fræðslufyrirlestraröð hjá handboltanum

Undanfarnar vikur hefur barna- og unglingaráð Fjölnis boðið iðkendum sínum upp á áhugaverða fræðslu frábærra fyrirlesara. Hreiðar Haraldsson frá Haus hugarþjálfun ræddi um afrekshugarfar við 3. og 4.flokk félagsins, Arnar Sölvi Arnmundsson íþróttanæringarfræðingur fór yfir hvernig næring getur skipt miklu máli í íþróttum fyrir 4. og 5.flokk og loks ræddi Pálmar Ragnarsson við 5. og 6.flokk um jákvæð samskipti til að byggja upp sterka liðsheild og öfluga leiðtoga.
Við þökkum fyrirlesurunum kærlega fyrir fræðsluna og vonum að iðkendurnir okkar muni nýta sér þessa fyrirlestraröð til að verða enn betri íþróttamenn.

Fréttatilkynning vegna komandi takmarkanna

Við viljum beina því til þjálfara, foreldra og iðkenda að vísa í fréttir af komandi takmörkunum á heimasíðu félagsins sem og FB síðu. Við munum uppfæra stöðuna um leið og ráðuneytið og ÍSÍ gefur út á sínum miðlum.

Eins og við höfum gert vel þá þurfum við að bretta upp ermar, standa þétt saman og koma okkur í gegnum komandi takmarkanir.

#FélagiðOkkar