Framkvæmdastjóri óskast

Ungmennafélagið Fjölnir, Grafarvogi auglýsir til umsóknar spennandi og krefjandi starf framkvæmdastjóra félagsins.

Fjölnir er fjölgreina íþróttafélag með 13 deildum og er félagið fjölmennasta íþróttafélag landsins.

Við leitum að aðila með framúrskarandi samskiptahæfni, leiðtogafærni og óbilandi áhuga á að byggja upp rótgróið félag með ungmennafélagsandann að leiðarljósi.

 

Helstu verkefni og ábyrgð: 

  • Yfirumsjón og ábyrgð á daglegum rekstri félagsins
  • Stýring fjármála, áætlanagerðar og kostnaðareftirlit
  • Launavinnsla
  • Tekjuöflun og markaðssetning félagsins
  • Framkvæmd framtíðarsýnar og stefnu félagsins í samvinnu við aðalstjórn
  • Mannauðsmál
  • Samskipti við deildarstjórnir félagsins
  • Samskipti við stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasambönd, sérsambönd, styrktaraðila og aðra hagsmunaaðila
  • Yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd verkefna

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun og/eða reynsla sem nýtist í starfi
  • Framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfni
  • Frumkvæði og leiðtogafærni
  • Þekking og reynsla á sviði fjármála æskileg
  • Reynsla í stjórnun og samningagerð kostur
  • Geta til að vinna undir álagi

 

Nánari upplýsingar veitir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, formaður félagsins í netfanginu formadur@fjolnir.is

Umsóknir berist í gegnum alfred.is. Óskað er eftir að feriskrá og kynningarbréf fylgi umsókn.

Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Umsóknarfrestur er til 26. ágúst 2024.


Íslenskur stórmeistari til liðs við Íslandsmeistara Fjölnis

Grafarvogsbúinn og stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson hefur gengið til liðs við Skákdeild Fjölnis og mun tefla með skáksveit Íslandsmeistaranna á komandi keppnisvetri.

Bragi býr ásamt fjölskyldu sinni í hjarta Grafarvogs og okkur Fjölnismönnum er mikill akkur í að fá frábæran liðsstyrk og góðan félaga.

Velkominn Bragi í Skáksveit Fjölnis, Íslandsmeistara 2024.


Sigurvegarar í 6. flokki kvenna á Símamótinu 2024

Símamótið var haldið núna um helgina, 11.-14. júlí. Mótið er fyrir 5., 6. og 7. flokk kvenna og í fyrsta skipti 2021 var Litla Símamótið haldið fyrir 8.flokk. Keppendur voru um 3.000 og því stærsta knattspyrnumót á landinu.
Fjölnisstelpur gerðu sér lítið fyrir og lentu í fyrsta sæti í 6. flokki! 🥳🏆
Við erum ótrúlega stolt af þeim og öllum okkar keppendum á mótinu. Framtíðin er svo sannarlega björt í kvennaboltanum ⚽️
Áfram stelpur! 🩷


Meistaramót Íslands 15-22 ára 

Helgina 21-23. júní fór fram Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum.

Fjölnir sendi nítján keppendur á mótið, sem fram fór á Selfossi.

Fjölniskeppendur hömpuðu sextán Íslandsmeistratitlum, auk þess að fá sjö silfurverðlaun og níu bronsverðlaun. Þá ber einnig að nefna að um þrjátíu persónuleg met voru sett.

Fjölnir var stigahæsta liðið í flokkum 18-19 ára stúlkna og 20-22 ára stúlkna og í 3ja sæti í heildarstigakeppninni mótsins, sem er frábær árangur!

Íslandsmeistaratitli náðu:

🏅Christina Alba Marcus Hafliðadóttir – langstökk og þrístökk 16-17 ára

🏅Kjartan Óli Bjarnason – 400 m hlaup og 400 m grindahlaup 16-17 ára

🏅Pétur Óli Ágústsson – 200 m hlaup 16-17 ára

🏅Arna Rut Arnarsdóttir – kringlukast og sleggjukast 18-19 ára

🏅Boðhlaupssveit 4x100m hlaup stúlkna 18-19 ára

🏅Grétar Björn Unnsteinsson – stangarstökk 18-19 ára

🏅Guðný Lára Bjarnadóttir – 800 m og 1500 m hlaup 20-22 ára

🏅Katrín Tinna Pétursdóttir – stangarstökk 20-22 ára

🏅Kjartan Óli Ágústsson – 400 m hlaup, 400 m grindahlaup og 800 m hlaup 20-22 ára

🏅Boðhlaupssveit 4x400m blönduð sveit 20-22 ára

Við óskum öllum keppendum Fjölnis innilega til hamingju með árangurinn!

Myndirnar tók Hlín Guðmundsdóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá FRÍ 📸


Vormót Fjölnis í frjálsum 2024

Vormót Fjölnis í frjálsum íþróttum var haldið þriðjudaginn 4. júní á frjálsíþróttavellinum í Mjódd.
Frjálsíþróttafólk á aldrinum 11-15 ára lét gula viðvörun ekki hafa áhrif á sig og mættu um 120 keppendur til leiks í 60m/100m hlaupi, langstökki, kúluvarpi og 600m/800m hlaupi.

Aðstæður voru ekki vænlegar til bætinga þetta árið en Fjölnisfólk kom með fern verðlaun heim í Grafarvoginn. Unnur Birna Unnsteinsdóttir (15 ára) náði í gullverðlaun fyrir kúluvarp, silfurverðlaun fyrir 800m hlaup og bronsverðlaun fyrir langstökk. Aron Magnússon (14 ára) nældi sér í bronsverðlaun fyrir langstökk.

Mót sem þetta krefst fjölda sjálfboðaliða til að allt gangi upp og tímasetningar standist. Þar stöndum við Fjölnisfólk einstaklega vel bæði hvað varðar þátttöku iðkenda og foreldra sem iðulega mæta og sinna verkefnum með jákvæðni og gleði að leiðarljósi.  Við getum verið stolt af okkar fólki.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af sjálfboðaliðum að sinna hinum ýmsu störfum á vellinum.  Áfram Fjölnir!


Gunnar Steinn Jónsson ráðinn þjálfari Olísdeildarliðs Fjölnis í handbolta!

Gunnar Steinn Jónsson snýr aftur heim - ráðinn þjálfari Olísdeildarliðs Fjölnis í handbolta

Gunnar Steinn Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í handbolta. Gunni er Grafaravogsbúum kunnur enda uppalinn í félaginu þar sem hann spilaði með yngri flokkum í handbolta og fótbolta við góðan orðstýr. Frá Fjölni lá leiðin til HK og þaðan í atvinnumennsku í Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku þar sem hann spilaði samhliða því að leika fyrir Íslands hönd og var þar með fyrsti Fjölnismaðurinn til að spila á stórmóti í handbolta. Eftir glæsilegan feril erlendis lá leið hans heim til Íslands þar sem hann lék og var aðstoðarþjálfari með Stjörnunni við hlið Patreks Jóhannessonar.

Á myndinni eru frá vinstri, Goði Ingvar Sveinsson, Sveinn Þorgeirsson, Gunnar Steinn þjálfari við undirritun og Daníel Freyr Rúnarsson meistaraflokksráði.

Gunnar tekur við stjórn liðsins sem vann sér inn sæti í úrvalsdeild í vor í eftirminnilegu einvígi í oddaleik í fullri Fjölnishöll. Meistaraflokksráð lýsir mikilli ánægju með ráðninguna sem endurspeglar stefnu félagsins vel að byggja á Fjölnismönnum og metnað félagsins til að vera með lið í efstu deild í handbolta.

Gunnar Steinn er spenntur fyrir komandi áskorun í Olís deildinni:

,,Það er frábær tilfinning að snúa aftur heim í Grafarvoginn og loka þannig þessum hring eftir góðan Evróputúr með fjölskyldunni. Sætið í Olísdeildinni gefur tækifæri á að byggja upp öflugt lið með mörgum Fjölnismönnum. Ég hlakka mikið til að leggja mitt að mörkum og byrja að vinna með strákunum. Ég hvet alla Grafarvogsbúa, fyrrverandi og núverandi, til að mæta á völlinn á næsta tímabili og styðja okkur, flaggskip Fjölnis í efstu deild.”

Það eru spennandi tímar fram undan í Grafarvoginum og handboltadeildin ætlar að leggja allt kapp á að skapa góða stemningu og gleði í kringum starfið í vetur. Við skorum á sem flesta á að vera með okkur í liði og taka þátt!

Meistaraflokksráð handboltadeildar Fjölnis


Frísk í Fjölni

Frísk í Fjölni er hreyfingarúrræði fyrir einstaklinga 60 ára og eldri og er þjónustan byggð í kringum hópþjálfun undir handleiðslu menntaðra þjálfara. Þjálfarar og stjórnendur verkefnisins eru öll menntaðir íþróttafræðingar frá Háskólanum í Reykjavík.  Á æfingum er lögð áhersla á styrktar-, þol, liðleika- og jafnvægisæfingar og er þjálfun aðlöguð að hverju og einum iðkanda. Markmið Frísk í Fjölni er að bæta líkamlega, andlega og félagslega heilsu þátttakenda og gefa eldra fólki tækifæri á að stunda hreyfingu í Fjölni. Einnig að auka þekkingu þátttakenda á mikilvægi hreyfingar og stuðla þannig að auknu heilsulæsi, farsælli öldrun og fjölgun heilbrigðra æviára.

Í vetur fóru fram þrennar líkamlegar mælingar á hópnum eftir stöðluðu prófi kallað The Senior Fitness Test og erum við stolt að segja frá því að niðurstöður þeirra mælinga eru alveg hreint frábærar. Þol þátttakenda jókst að meðaltali um 15% á tímabilinu, styrkur í efri líkama jókst að meðaltali um 26% og styrkur í neðri líkama jókst að meðaltali um 24%. Skipulögð styrktarþjálfun sem þessi vinnur gegn vöðvarýrnun og beinþynningu og stuðlar því að bættri heilsu þátttakenda.

Í viðhorfskönnun sem send var út á dögunum kom í ljós að 95% þátttakenda mátu líkamlegt ástand sitt betra og 63% mátu andlega heilsu sína betri eftir að þeir höfðu þátttöku í Frísk í Fjölni. 100% þátttakenda sögðust hafa kynnst nýju fólki og sögðust vilja halda áfram á næstu önn. Má því segja að verkefnið er að mæta þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Mælingar sýna fram á bætta líkamlega heilsu og í svörum þátttakenda í viðhorfskönnun hafa allir kynnst nýju fólki og flestir meta andlega heilsu sína betri.

Það er ekki hægt að draga úr því hversu stolt við erum af öllum þátttakendum og hversu ánægjulegt það er að sjá bætingar þeirra. Ekki síður er gaman að sjá hversu ánægðir þátttakendur virðast vera með starfið.


Ragna Lára og Kolbrún Ída í úrvalslið Reykjavíkur á Grunnskólamóti höfuðborga Norðurlandanna

Grunnskólamót höfuðborga Norðurlandanna 2024 (Nordic Capitals’ School Games) fer fram í Reykjavík 26.-31. maí. Keppt er í handknattleik stúlkna, knattspyrnu drengja og frjálsíþróttum beggja kynja.

Á dögunum var valið í úrvalslið Reykjavíkur sem keppir fyrir hönd borgarinnar á mótinu. Í liðinu eru 41 keppandi, fjórir þjálfarar og tveir fararstjórar.

Tvær stúlkur frá Fjölni/Fylki hafa verið valdar í 10 manna úrvalslið Reykjavíkur í handbolta sem keppir á móti úrvalsliðum höfuðborganna.  Þetta eru þær Ragna Lára Ragnarsdóttir og Kolbrún Ída Kristjánsdóttir,  leikmenn  5. og 4. flokks Fjölnis/Fylkis.

Við óskum stelpunum innilega til hamingju og óskum þeim góðs gengis á mótinu.

 

Á meðan mótinu stendur er hægt að fylgjast með og fá upplýsingar á heimasíðu Íþróttabandalags Reykjavíkur, www.ibr.is. Skoða þar úrslit leikja, sjá myndir og lesa stutta umfjöllun alla daga. Einnig er hægt að fylgjast með á Facebooksíðu Íþróttabandalags Reykjavíkur.

 

#FélagiðOkkar


Fjölnishlaup Olís 2024

Hið árlega Fjölnishlaup Olís var ræst í 36. sinn á Uppstigningardag 9. maí í blíðskaparveðri frá íþróttamiðstöðinni við Dalhús. Fjölnishlaup Olís er partur af mótaröð sem kallast Gatorade Sumarhlaupin, en mótaröðin var fyrst sett á laggirnar sumarið 2009 og er þetta því í sextánda sinn sem hún er haldin. Fjölnishlaupið sjálft er þó einn elsti viðburður opinn almenningi á vegum Fjölnis og í ár var boðið var upp á þrjár vegalengdir; 1,4 km skemmtiskokk, 5 km hlaup og 10 km hlaup. Það verður ekki annað sagt en að veðrið hafi leikið við hlaupara og aðra í Grafarvoginum og var stemmingin frábær. Þátttaka í ár var góð en 272 tóku þátt í hlaupinu í þetta sinn og skiptust keppendur niður í 3 greinar. 59 keppendur tóku þátt í 10km hlaupi, 72 keppendur hlupu 5km og alls 141 hlaupari lauk 1,4km skemmtiskokki í ár.

 

Verðlaunahafar árið 2024:

10km hlaup kvenna

  1. sæti – Íris Anna Skúladóttir FH á 00:37:10
  2. sæti – Elín Edda Sigurðardóttir ÍR á 00:38:16
  3. sæti – Fríða Rún Þórðardóttir ÍR á 00:39:50

10km hlaup karla:

  1. sæti – Arnar Pétursson Breiðablik á 00:33:32
  2. sæti – Hugo Landron FH á 00:34:29
  3. sæti – Sigurgísli Gíslason FH á 00:34:44

5km hlaup kvenna

  1. sæti –  Dalrós Ingadóttir á 00:21:27
  2. sæti –  Eva Skarpaas á 00:22:22
  3. sæti –  Henný Dröfn Davíðsdóttir á 00:24:06

5km hlaup karla:

  1. sæti –  Sigurður Karlsson ÍR  á 00:17:40
  2. sæti –  Vilhjálmur Þór Svansson ÍR á 00:18:14
  3. sæti – Sigurður Júlíusson á 00:18:13

 

Auk þessa fengu öll börn sem tóku þátt í skemmtiskokkinu glaðning frá Olís.

Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt og hlökkum til að sjá ykkur öll á næsta ári!

 


Heiður Karlsdóttir æfir með A-landsliði í sumar

Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari kvennaliðsins í körfubolta og aðstoðarþjálfarar hans hafa boðað Heiði Karlsdóttur til æfinga með A-landsliði kvenna í sumar 🏀✨
Við óskum Heiði innilega til hamingju og óskum henni góðs gengis á æfingunum 🥰