Sex ungmenni úr frjálsíþróttadeild Fjölnis í unglingalandsliðið

Sex ungmenni úr frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa verið valin í Unglingalandslið Frjálsíþróttasambands Íslands en þangað eru valin þau 15-19 ára ungmenni sem hafa náð tilskildum lágmörkum.

Unglingalandsliðfólkið okkar er:

Unnur Birna Unnsteinsdóttir, 15 ára - hástökk

Guðrún Ásgeirsdóttir, 16 ára - kringlukast

Christina Alba Marcus Hafliðadóttir, 17 ára - langstökk  

Kjartan Óli Bjarnason, 17 ára – 400m

Pétur Óli Ágústsson, 17 ára – 100m, 200m, 400m og 400m grindahlaup

Grétar Björn Unnsteinsson, 18 ára - stangarstökk

Fjölnir óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn!

Þið eruð frábær <3


Baldur Már Stefánsson tekur við meistaraflokki karla í körfubolta

Risafréttir úr Grafarvoginum!
Baldur Már Stefánsson tekur við meistaraflokki karla Fjölnis í körfubolta.
Fjölnir Karfa hefur ráðið Baldur Má Stefánsson sem þjálfara meistaraflokks karla út tímabilið.  Baldur Már hefur síðustu tvö tímabil verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR ásamt því að hafa stýrt drengja- og unglingaflokki ÍR.
Áður en Baldur gekk til liðs við ÍR starfaði hann hjá okkur í Fjölni sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í tvö ár sem og stýra drengja- og unglingaflokki okkar með góðum árangri.
Að auki hefur Baldur komið víða við í þjálfun, þar á meðal hjá Stjörnunni og Breiðablik síðustu ár, sem og starfað sem aðstoðarþjálfari hjá yngri landsliðum Íslands á síðustu árum og unnið með ungum og efnilegum leikmannahópum.
,,Ég er gríðarlega spenntur fyrir verkefninu, ég átti tvö frábær ár hérna í Grafarvoginum og líður mjög vel að koma aftur inn í Dalhús. Þetta er skemmtilegur leikmannahópur og ég hlakka mikið til að hefjast handa og byrja að vinna með þessum strákum," sagði Baldur við tilefnið.
Við bjóðum Baldur Má velkominn á ný í Grafarvoginn!
KKD Fjölnis

Ásgeir Frank Ásgeirsson ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu

Ásgeir Frank Ásgeirsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni til næstu tveggja ára. Ásgeir, sem er alinn upp í Fossvoginum, lék upp yngri flokkana hjá Víkingum í Reykjavík ogi lék með þeim 2 leiki í Bestu deildinni með uppeldisfélaginu.

Þess utan lék Ásgeir í 3 ár með liði Aftureldingar sem fór upp í efstu deild nú í haust auk þess sem hann þjálfaði lið Hvíta Riddarans í fyrra. Ásgeir á að baki 5 leiki fyrir U-19 ára landslið karla.

Er þetta mikill fengur fyrir Fjölni að fá svona sterkan einstakling og karakter í Grafarvoginn enda mun Ásgeir einnig vinna þvert á flokka og verða leiðandi í afreksstarfi Fjölnis í samstarfi við yfirþjálfara félagsins og þjálfara 2. og 3. flokks karla.

Vill félagið á sama tíma þakka fráfarandi aðstoðarþjálfara félagsins, Einari Jóhannesi Finnbogasyni, fyrir samstarfið undanfarin ár. Einar hefur verið afar vinsæll meðal Fjölnismanna eftir að hafa verið hægri hönd Úlla bæði í 2. flokki karla og í meistaraflokki sl 7 ár.


Eva Karen Sigurdórsdóttir semur við Fjölni

Eva Karen Sigurdórsdóttir hefur snúið aftur heim til Fjölnis og gert tveggja ára samning við félagið.
Eva hefur spilað í Lengjudeildinni með Fram, HK og Gróttu en þar fyrir utan á hún 49 leiki með félaginu í Lengjudeild og 2. deild kvenna.
Það er mikið gleðiefni fyrir félagið að fá Evu heim því hún er afar öflugur miðjumaður sem þekkir vel til innan félagsins.
Eva á að baki 2 leiki með U17 ára landsliði Íslands.
#FélagiðOkkar 💛💙

Harpa Sól framlengir við Fjölni

Miðjumaðurinn Harpa Sól Sigurðardóttir hefur framlengt samning sinn við Fjölni til næstu tveggja ára.
Harpa sem er afar öflugur og kraftmikill miðjumaður hefur leikið 39 leiki með félaginu í deild og bikar og skorað í þeim 14 mörk.
Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir félagið því Harpa er ekki bara mikilvægur hlekkur í liðinu heldur uppalin hjá félaginu og hluti af þeirri uppbyggingu sem á sér stað innan þess.
#FélagiðOkkar 💛💙

 


Lokahóf meistaraflokka í knattspyrnu 2024

Lokahóf meistaraflokka Fjölnis í knattspyrnu fór fram í hátíðasalnum Dalhúsum laugardaginn 28. september síðastliðinn. Þar komu saman leikmenn, þjálfarar og stjórnamenn og konur til þess að loka nýliðnu tímabili en boðið var upp á mat og drykk auk skemmtiatriða.
Alls voru veittar sex viðurkenningar fyrir sumarið en Máni Austmann Hilmarsson og María Sól Magnúsdóttir voru markahæst, Jónatan Guðni Arnarson og Emilía Lind Atladóttir voru efnilegust og svo voru Hrafnhildur Árnadóttir og Halldór Snær Georgsson valin best.
Eins var Guðmundi Karli leikmanni karlaliðsins færð blóm fyrir öll árin og frábæran tíma hjá félaginu. Verður það mikil eftirsjá enda magnaður leikmaður og Fjölnismaður þar á ferð.


Staða borða 17.10.24 kl. 18:00

Staða seldra borða á Þorrablót Grafarvogs fimmtudaginn 17. október kl. 18:00

Borðapantanir fara fram á vidburðir@fjolnir.is


Þorrablót Grafarvogs 2025

Miðasala fyrir Þorrablót Grafarvogs hefst í fyrramálið á slaginu 10:00!
Miðapantanir fara í gegnum vidburdir@fjolnir.is 🤠
12 manns á borði💃
Safnborð fyrir minni hópa🕺
Ferlið er einfalt!
1. Þú velur borð og sendir pöntun á netfangið vidburdir@fjolnir.is.
2. Við svörum þér hvort borðið sé laust.
3. Þú greiðir og sendir okkur kvittun.
4. Við staðfestum pöntun þegar kvittun berst.

Úlfur framlengir við Fjölni

Knattspyrnudeild Fjölnis og Úlfur Arnar Jökulsson hafa framlengt samning Úlfs um
þjálfun Lengjudeildarliðs Fjölnis. Samningurinn gildir til tveggja ára.
"Við hjá Fjölni erum ákaflega ánægð með að hafa endurnýjað samninginn við Úlf.
Við höfum byggt upp ungt og skemmtilegt lið sem var nálægt því að vinna sig upp um deild.
Við munum áfram leggja áherslu á að ungir knattspyrnumenn eigi greiðan aðgang að meistaraflokkshópi
félagsins og að Fjölnir sé í fremstu röð í að búa til unga afreksleikmenn.
Þetta er í samræmi við afreksstefnu okkar. Í þessari vegferð gegnir Úlfur lykilhlutverki" segir
Björgvin Jón Bjarnason formaður knattspyrnudeildar Fjölnis í tilefni af framlengingu samningsins.
„Ég er bæði ánægður og stoltur að hafa endurnýjað samning minn sem þjálfari Fjölnis í meistaraflokki karla í knattspyrnu.
Fjölnir er minn uppeldisklúbbur og ég á þar sterkar rætur. Mér finnst mikill heiður að vera treyst fyrir áframhaldandi þjálfun Fjölnis.
Ég hlakka til að halda áfram að vinna með þessum frábæra hópi og byggja ofan á þann árangur sem náðist í sumar.
Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við komandi tímabil af krafti og eldmóði og trúi því að við getum gert enn betur. Áfram Fjölnir!“ sagði Úlfur við sama tækifæri.
Fjölnir hefur gengið frá samningum við 6 15-16 ára knattspyrnumenn sem munu á næsta ári verða hluti af afreksstarfi félagsins.

Fjölnir býður nýjan framkvæmdastjóra velkominn til starfa

Í dag hefur störf nýr framkvæmdastjóri Fjölnis, Guðmundur G. Sigurbergsson og er hann boðinn velkominn til starfa.
Guðmundur þekkir vel til í íþróttahreyfingunni en hann er m.a. gjaldkeri stjórnar UMFÍ og formaður stjórnar UMSK. Þá hefur hann á síðustu árum m.a. starfað sem fjármálastjóri Endurvinnslunnar og fjármála- og rekstrarstjóri Samhjálpar.
Aðalstjórn Fjölnis vill enn fremur þakka fráfarandi framkvæmdastjóra Guðmundi L. Gunnarssyni fyrir hans frábæru störf fyrir félagið en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri í 12 ár og þar á undan átti hann sæti í aðalstjórn félagsins. Félagið hefur stækkað mikið á þeim tíma og á Gummi því sinn þátt í fjölbreyttu og umfangsmiklu starfi félagsins. Óskum við honum velfarnaðar í framtíðinni.