Fréttabréf Listskautadeildar
Önnin fer vel af stað
Önnin fer vel af stað og hægt er að finna eitthvað fyrir alla, hvort sem þú ert tveggja ára eða fullorðinn, byrjandi eða lengra kominn. Skautaskólinn er fyrir krakka 2-12 ára og svo tekur unglinga- og fullorðinshópurinn við. Þegar skautarar eru svo tilbúnir að fara lengra taka framhaldshóparnir við. Þá bjóðum við einnig upp á skautahlaup. Það er aldrei of seint að skrá sig og það eru allir velkomnir að koma að prófa. Hægt er að lesa allt um deildina HÉR.
Félagsfatnaður
Listskautadeildin er í samstarfi við M Fitness varðandi æfingafatnað. Hér er hægt að panta Fjölnismerkt listskautaföt og afísbúnað HÉR.
Hraðasti skautarinn
Hraðasti skautarinn tímatökur fóru fram 9.janúar. 9 skautarar frá listskautadeild tóku þátt og stóðu sig með mikilli prýði, en þær skautuðu hringinn á 14,19-18,44 sekúndum og þrjá hringi á 40,69-52,15. Fleiri tímatökur eru eftir en áætlað er að þær fari fram í febrúar og apríl. Nánar er hægt að lesa um verkefnið HÉR.
Fjölskylduæfing
Laugardaginn 10.janúar héldum við fjölskylduæfingu hjá flestum hópum. Foreldrum og systkinum var boðið að taka þátt á æfingu til að fá innsýn í líf skautaranna. Þáttaka var mjög góð og gekk dagurinn vel.
Kristalsmót
Illa gengur að manna dómarastöður á Kristalsmóti. Enn er óvíst hvenær eða hvort takist að halda mótið. Skautasambandið stefnir á að halda dómaranámskeið og hvetjum við alla sem hafa áhuga að kynna sér það.
Fréttir af þjálfurum
Flottu þjálfararnir okkar hafa verið duglegir að bæta við sig menntun síðasta misserið. Þau Ísabella og Marinó luku 1.stigi þjálfunarmenntunar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands síðasta sumar. Elva, Ísabella og Marinó bættu síðan við sig 1.stigi þjálfunarmenntunar Skautasambands Íslands í haust, auk þess sem Ásta tók þar endurmenntun, en öll luku þau náminu í desember. Óskum við þeim öllum innilega til hamingju með þessa áfanga.
Ilaria er komin til starfa og viljum við bjóða hana velkomna til Fjölnis. Ilaria er reynslumikill þjálfari og við getum talið okkur heppin að fá hana til okkar. Viktória er að starfa sinn síðasta mánuð og verður hennar sárt saknað. Takk fyrir frábært samstarf Viktória og við óskum þér og þínum alls hins besta!
Paraskautun á EM
Júlía Sylvía og Manuel tóku þátt á Evrópumóti sem fór fram í Sheffield 13.-18. janúar. Þetta er í annað sinn sem þau keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumóti. Eftir stutta prógrammið lentu þau í 9.sæti með 57,45 stig. Fyrir frjálsa prógrammið fengu þau 105,17 og urðu þetta samtals 162,62 stig og 11.sætið. Þetta voru persónuleg met hjá parinu í stutta, frjálsa og heildareinkunn. Nú eru þau einungis 3 tæknistigum frá því að ná inn á Heimsmeistaramót. Gríðarlega góður árangur hjá parinu.
Norðurlandamót 2026
27.janúar – 1. febrúar fer fram Norðulandamót í Hvidovre í Danmörku. Tveir keppendur frá Fjölni, Arna Dís og Elín Katla, fara fyrir hönd Íslands. Það styttist í að þær leggi af stað og óskum við þeim góðrar ferðar og góðs gengis. Áfram Ísland!
Hópefli fyrir hópa 1-5
Þar sem allar æfingar falla niður vegna hokkímóts laugardaginn 7.febrúar ætla hópar 1-5 að gera sér glaðan dag og skella sér saman í keilu! Nánari upplýsingar á Abler. Hlökkum við mikið til og vonumst til að sjá sem flesta!
Stjórn
Nú fer aftur að styttast í aðalfund. Stjórnin er verulega undirmönnuð og vantar nýliðun í næstu stjórn. Endilega hjálpið okkur að vinna þetta saman. Rekstur svona deildar gengur ekki nema með hjálp sjálfboðaliða. Það að vera í stjórn gefur manni sýn á bak við tjöldin og betri skilning á þessari íþrótt sem börnin okkar elska.











