Þorgeir Örn Tryggvason ráðinn markaðsstjóri Ungmennafélagsins Fjölnis

Aðalstjórn Fjölnis hefur ráðið Þorgeir Örn Tryggvason í markaðstjóra félagsins. Í starfi sínu mun hann leiða markaðs-, kynningar- og fjáröflunarstarf félagsins í nánu samstarfi við skrifstofu, stjórnir deilda og sjálfboðaliða.

Þorgeir er uppalinn Fjölnismaður og hefur um árabil komið að starfi félagsins í fjölbreyttum hlutverkum. Hann hefur reynslu sem iðkandi, þjálfari, sjálfboðaliði og stjórnarmaður, auk þess að hafa sinnt markaðs- og kynningarmálum fyrir einstakar deildir innan félagsins. Sú reynsla veitir honum góða innsýn í starfsemi félagsins, menningu þess og þarfir ólíkra deilda.

Þorgeir lauk MMM-gráðu í markaðsstjórnun og MLM-gráðu í forystu og stjórnun árið 2024 frá Háskólanum á Bifröst. Hann starfaði áður hjá tryggingarfélaginu Sjóvá en hefur síðasta árið byggt upp eigið fyrirtæki á sviði markaðsmála, efnisgerðar og ljósmyndunar. Samhliða því hefur hann starfað sem aðstoðarkennari við Háskólann á Bifröst í áfanganum Stefnumótun og framtíðarsýn.

Í starfi markaðsstjóra mun Þorgeir leggja áherslu á að efla samræmda ímynd Fjölnis, styrkja upplýsingamiðlun og styðja við markaðs- og fjáröflunarstarf allra deilda félagsins. Þá verður lögð áhersla á aukinn sýnileika, faglega efnisgerð og skýrari ramma utan um samstarf við styrktaraðila og samfélagið í kringum félagið.

Aðalstjórn Fjölnis bindur vonir við að reynsla Þorgeirs, tenging hans við félagið og þekking á markaðsmálum muni styrkja starfsemi Fjölnis enn frekar á komandi árum.

Þorgeir hefur þegar hafið störf og tekur við af Örnu Guðnadóttur, sem er jafnframt þakkað fyrir hennar störf í þágu félagsins.

UNGMENNAFÉLAGIÐ FJÖLNIR

Egilshöll | Fossaleyni 1 | 112 Reykjavík | Kt. 631288-7589

Opnunartími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
09:00-12:00 og 13:00-16:00

Föstudaga
09:00-12:00

Símatími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
10:00-11:30

Sími: 578-2700

Hafðu samband

skrifstofa@fjolnir.is

Translate »