Fréttabréf Listskautadeildar
Skautapar ársins 2025
Stjórn Skautasambands Íslands, í samvinnu við Afreksnefnd ÍSS, hafa valið Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur & Manuel Piazza sem skautapar ársins 2025.
Hægt er að lesa meira um valið hér HÉR
Keppnisferðir erlendis
Eftir Íslandsmeistaramót fór fram val skautara á Norðurlandamót 2026 hjá stjórn ÍSS í samvinnu við Afreksnefnd. Mótið fer fram í Hvidovre í Danmörku þann 27. janúar til 1. febrúar. Skemmst er frá því að segja að Arna Dís Gísladóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir voru valdar frá okkur í Fjölni til að taka þátt í Advanced Novice flokki á mótinu.
Hægt er að lesa meira um valið hér HÉR
Grunnpróf
Í desember fóru fram grunnpróf ÍSS. Margir Fjölnisiðkendur þreyttu próf og gekk í heildina mjög vel. Næstu grunnpróf eru á dagskrá í apríl.
Hægt er að lesa meira um grunnpróf hér HÉR
Elín Katla valin skautakona ársins hjá Fjölni
Elín Katla hefur ár eftir ár sýnt fram á einstaka eljusemi og hollustu við listskautun. Frá unga aldri hefur hún stöðugt skilað frábærum árangri fyrir sjálfa sig, fyrir félagið okkar og fyrir Ísland. Hún er sterkur íþróttamaður og ýtir sífellt undir framfarir og ný viðmið. Hún hefur verið Íslandsmeistari í yngri flokkum og hefur nú tvö ár í röð verið Íslandsmeistari í Advanced Novice flokki. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Elín Katla enn á ný skarað fram úr með því að setja þrjú ný Íslandsmet í stuttu prógrammi, frjálsu prógrammi og í heildarstigum. Á alþjóðavettvangi hefur Elín Katla staðið sig með mikilli prýði og unnið til tveggja gullverðlauna á ISU alþjóðlegum mótum á þessu ári sem verður að teljast frábær árangur. Eljusemi, agi og ástríða Elínar Kötlu gera hana að framúrskarandi fyrirmynd fyrir yngri skautara og verðuga að þessari viðurkenningu. Til hamingju Elín!
Jólasýning
Sunnudaginn 21. desember fór fram hin árlega jólasýning listskautadeildarinnar. Sýningarnar voru tvær, fyrri með skautaskóla ásamt framhaldshópum (1-4) og sú seinni allir framhaldshópar (1-5). Þema sýninganna voru íslensku jólasveinarnir og stóðu allir skautarar sig með prýði og var stemmingin mjög góð og skemmtileg. Grýla, jólakötturinn, bræðurnir þrettán og margt fleira. Við vonum að allir hafi skemmt sér vel og þökkum sjálfboðaliðum fyrir þeirra ómetanlega framlag, sem og öllum þeim sem mættu á sýningarnar og studdu deildina með kaupum í sjoppunni.
Jólanámskeið
Þessa dagana fara fram jólanámskeið deildarinnar. Námskeiðin hafa verið vel sótt og gaman er að sjá áhugann fyrir því að æfa skauta. Að því sögðu viljum við minna á að alltaf er velkomið að koma prófa 1-2 æfingar ef áhugi er til staðar.
Takk fyrir önnina
Að lokum viljum við þakka öllum fyrir önnina sem er að líða og hlökkum til að sjá ykkur aftur á næstu önn. Skráning hefst 2. janúar á Abler og æfingar hefjast 5. janúar. Kærar þakkir til allra sjálfboðaliða sem hjálpuðu við alls konar tilefni hjá okkur og vonandi að enn fleiri hjálpi til á næstu önnum. Við vonum að allir hafi það gott um hátíðirnar.
Hér að neðan má svo sjá hvað er framundan á vorönn:
- Hraðasti skautarinn tímatökur, nánar um verkefnið HÉR:
- Europeans Sheffield 12.-18. janúar.
- Kristalsmót (þurftum því miður að breyta dagsetningu en líkleg dagsetning í augnablikinu er 31. janúar).
- Vormót Akureyri 27.-29. mars.
- Landsliðsferð Sonja Henie 5.-8. mars.
- Grunnpróf apríl (áætlaðar dagsetningar 20.-22. apríl).
- Skautaþing maí (áætluð dagsetning 12. maí)
- Vorsýning maí.
- Afreksbúðir sumar.







