
🌟 Elín Katla setti þrjú Íslandsmet á Northern Lights Trophy í Egilshöll 🌟
Alþjóðlega listskautamótið Northern Lights Trophy fór fram um helgina í Egilshöll og tókst afar vel.
Mótið er haldið af Listskautadeild Fjölnis og Skautasambandi Íslands og skiptist í tvo hluta – annars vegar alþjóðlegt mót (Advanced Novice, Junior og Senior) og hins vegar Interclub-mót, þar sem fjölmargir íslenskir skautarar tóku þátt og stóðu sig frábærlega.
Ísland átti fjóra keppendur í alþjóðlega hluta mótsins. Í Advanced Novice Women kepptu Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, Arna Dís Gísladóttir og Ylfa Rún Guðmundsdóttir. Ylfa Rún endaði í 10. sæti og Arna Dís í 9. sæti.
Elín Katla sigraði keppnisflokkinn með yfirburðum, 19 stigum á undan næsta keppanda. Elín Katla setti jafnframt nýtt Íslandsmet í bæði stuttu prógrammi, frjálsu prógrammi og í heildarstigum. Stigin hennar fyrir stutta prógrammið voru 42.26.
Fyrra met í stuttu prógrammi átti Ísold Fönn frá árinu 2018. Stigin hennar fyrir frjálsa prógrammið voru 77.49 og heildarstigin 119.75. Þetta er í annað sinn á fáeinum vikum sem hún setur nýtt met, en nú bætti hún heildarstigametið um 10 stig.
Í Junior Women keppti Sædís Heba Guðmundsdóttir. Hún endaði í 4. sæti, einungis 1,5 stigum frá þriðja sætinu.
Í Basic Novice flokki á Interclub-mótinu hafnaði Elysse Marie í öðru sæti og Maxime í þriðja sæti, glæsilegur árangur hjá þeim báðum.
Northern Lights Trophy er árlegt, alþjóðlegt mót sem veitir íslenskum skauturum dýrmæta keppnisreynslu á heimavelli.
Listskautadeild Fjölnis og Skautasamband Íslands þakka keppendum, þjálfurum, dómurum og sjálfboðaliðum fyrir vel heppnað mót og glæsilega þátttöku 💛💙
