Uppgjör formanns knattspyrnudeildar

Nú er komið að lokum keppnistímabilsins 2025, en undirbúningur fyrir það hófst í október í fyrra. Leikmenn meistaraflokka fá nú stutt frí, en hefja æfingar aftur í október.

Árangur í sumar

Kvennalið okkar keppti í annarri deild og lenti í fjórða sæti. Undir stjórn Vesko Chilingirov er að myndast lið sem leikur góða knattspyrnu. Enn meira máli skiptir er að liðsheildin er feikilega öflug og samheldin, það er eitthvað sem þessir leikmenn munu búa að löngu eftir að knattspyrnuiðkun lýkur. Enn eru talsverð færi til framfara hjá liðinu, þannig voru þrír markahæstu leikmenn liðsins aðeins með fimm mörk hver og enginn þeirra sóknarmaður. Við munum kappkosta að styrkja lykilstöður í liðinu og ætlum því að fara upp um deild á árinu 2026.

Karlalið okkar keppti í Lengjudeild og lenti í neðsta sæti deildarinnar. Okkar bíður því sumardvöl í annarri deild. Það er rétt að dvelja aðeins við þessa stöðu og hvernig við viljum bregðast við henni. Við seldum lykilleikmenn frá okkur í fyrravetur, auk þess sem mikilvægir leikmenn hættu knattspyrnuiðkun. Þeir fjármunir sem þarna mynduðust voru að langmestu leyti notaðir til að greiða upp skuld deildarinnar við Aðalstjórn, ekki var svigrúm á þeim tíma til að bæta miklu við liðið. Undirbúningstímabilið fór illa af stað og liðið var seint að komast í keppnisfært ástand. Við vissum að við færum inn í mót með ungt lið, en töldum að við hefðum hóp eldri leikmanna sem ættu að geta stutt við yngri leikmenn og auðveldað þannig þessa hröðu yngingu á liðinu. Þetta reyndist ofmat og var eldri leikmönnum fækkað yfir sumarið. Þess í stað tóku yngri leikmenn mun stærra hlutverk en þeim hafði verið ætlað og e.t.v. var sanngjarnt. Þannig tóku þessir drengir út hraðari þroska en ella og töp í jöfnum leikjum gegn efstu liðum deildarinnar í jöfnum leikjum undir lok tímabils sýna hvað í þessum hóp býr og hvað framtíðin getur boðið upp á hjá okkur Fjölnismönnum.

Hver eru næstu skref?

Ég held að við getum öll litið í eigin barm og séð að við hefðum getað gert eitthvað betur í þessu ferli. Það er hollt að horfa til tilvitnunar í orð breska listamannsins Banksy sem sagði “Winners are not those who never lose, but those who never quit.” Það er nákvæmlega þannig sem við ætlum að bregðast við þessari stöðu. Við munum efla þetta lið í lykilstöðum og nýta frábæra unga Fjölnisdrengi til að koma okkur aftur í Lengjudeildina árið 2027. Þessi hópur á ekki erindi í aðra deild og á ekki að vera í botnbaráttu Lengjudeildar. Við setjum þetta mál aftur fyrir okkur. Þetta mun ekki gerast nema að við leggjum meira á okkur og berjumst fyrir hverjum bolta. Það hefur verið sérstakt ánægjuefni að sjá unga leikmenn meistaraflokks koma og skrifa undir nýja samninga við félagið undir þessum kringumstæðum. Þeir skynja vel að þrátt fyrir einhvern hiksta erum við á ferðalagi sem er spennandi að taka þátt í. Þetta er þessum piltum til sóma.

Við erum á síðustu tveimur árum búin að endurráða í allar stöður aðalþjálfara í deildinni. Nýir aðilar stýra meistaraflokksliðum (varla hægt að kalla Herra Fjölni “nýjan aðila”) og nýir þjálfarar stýra starfssemi BUR. Þessar breytingar eru partur af hugmyndafræði að samhæfa starfið og að deildin starfi eftir afreksstefnu sem byggir á þéttu samstarfi barna- og unglingastarfs og afreksflokka. Auk þessara breytinga munum við sjá frekari breytingar varðandi þjálfun og þjónustu við iðkendur. Þannig munu allir iðkendur frá 5. flokki njóta viðeigandi styrktarþjálfunar frá komandi hausti. Þannig bætum við árangur, minnkum hættu á meiðslum og bætum þjónustu við iðkendur.

Stefna okkar er skýr. Fjölnir á, sem ein stærsta knattspyrnudeild landsins, að eiga meistaraflokkslið í efstu deildum íslenskrar knattspyrnu. Til þess þurfa nokkrir hlutir að gerast: Við þurfum að framleiða fleiri afreksiðkendur í barna- og unglingastarfi, ungir leikmenn okkar þurfa að fá tækifæri til að þróast, fjárhagur okkar þarf að vera traustur og aðstaða okkar þarf að standast samanburð. Þegar horft er til þeirra verkefna sem við höfum lagt mesta orku í má sjá að þau eru í takt við þessa stefnu.

Fjárhagsmál deildarinnar

Talsvert hefur verið rætt um fjárhagsvanda Fjölnis. Hafandi horft á reikninga deildarinnar síðustu tvö ár sýnist mér að ljóst sé að það hafi “slökknað” á starfseminni í Covid. Eigin fjáröflun deildarinnar dróst mjög saman og tók ekki við sér eftir að stuðningi opinberra aðila lauk. Þetta er að einhverju leyti heimatilbúinn vandi, en félagið býr ekki við þá stöðu sem sum önnur félög njóta, að eiga sterka bakhjarla sem móta fjárhaginn. Við höfum hins vegar saman lagt mikla vinnu í að auka tekjuöflun deildarinnar, höfum lækkað rekstrarkostnað og þannig snúið taprekstri við. Við höfum greitt niður skuldir við Aðalstjórn félagsins og rekum orðið býsna heilbrigða deild. Það er þó enn mikil vinna óunnin, enn þarf að auka tekjur deildarinnar til að byggja upp öflugri starfssemi.

Aðalstjórn Fjölnis hefur tekið mikið framfaraskref með auknum aðskilnaði í fjárhag deilda félagsins. Þannig renna allar tekjur knattspyrnudeildar beint inn á bankareikninga deildarinnar og nýtast eingöngu til að standa straum af kostnaði við rekstur hennar. Fyrra fyrirkomulag var öllu óskýrara og kom í veg fyrir að einstakar deildir nytu ráðdeildar sinnar. Þetta mun vonandi verða til að efla fjárhag og rekstur allra deilda UMF Fjölnis.

Síðustu tvö ár höfum við lagt mikinn metnað í að efla barna- og unglingastarf knattspyrnudeildar. Við höfum breytt mjög miklu varðandi skipulag barna- og unglingastarfs og tengingu við afreksstarfið. Ég held að við getum strax séð árangur þessa, í gær lék hinn 15 ára gamli Brynjar Elí Jóhannsson sinn fyrsta leik með meistaraflokki karla. Hann er yngsti leikmaður sem hefur leikið keppnisleik með meistaraflokki Fjölnis.

Iðkendum yngri flokka hefur fjölgað talsvert á síðustu tveimur árum. Þá höfum við lagt áherslu á að fá yngri iðkendur, nú síðast með knattspyrnuskóla fyrir 3-4 ára börn. Með þessum hætti búum við til fleiri iðkendur sem njóta holls lífstíls og eiga möguleika á að verða afreksiðkendur í framtíðinni. Við höfum nýtt aukið fjárhagslegt svigrúm til að bæta innviði okkar, bæði til að auka þjónustu við iðkendur og að bæta tekjuöflun deildarinnar. Þessir einstaklingar hafa unnið frábært starf og haft mjög jákvæð áhrif, á fjárhag, ytri ásýnd og aðra þætti starfseminnar. Allt þetta mun efla okkur í framtíðinni.

Aðstaða til iðkunar

Knattspyrnudeild Fjölnis býr við mun lakari aðstöðu til æfinga og keppni en aðrar sambærilegar knattspyrnudeildir á höfuðborgarsvæðinu. Aðstaða okkar er samanburðarhæf til félög sem eru að hámarki með helming af þeim fjölda sem við þjónustum. Þessi staða háir félaginu klárlega í að ná árangri og bjóða þá þjónustu sem keppinautar okkar geta boðið. Þessa stöðu þarf að laga, strax. Það er ekki boðlegt að ungmenni í Grafarvogi séu hornsett þegar kemur að möguleikum til knattspyrnuiðkunar. Aðalstjórn félagsins hefur átt í áralöngum viðræðum við Reykjavíkurborg. Knattspyrnudeild mun væntanlega fá rödd við það borð, ljóst er að þetta er eitt mikilvægasta verkefni deildarinnar á næstu misserum.

Að lokum, stuðningur Grafarvogsbúa við félagið er okkur gríðarmikilvægur. Við þurfum að fá fólk á völlinn, sem hvetur liðið til dáða. Áhorfendur eru 12. maður liðsins, ef vel tekst til. Allir á völlinn.

Með Fjölniskveðju,
Formaður knattspyrnudeildarinnar
Björgvin Jón Bjarnason

UNGMENNAFÉLAGIÐ FJÖLNIR

Egilshöll | Fossaleyni 1 | 112 Reykjavík | Kt. 631288-7589

Opnunartími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
09:00-12:00 og 13:00-16:00

Föstudaga
09:00-12:00

Símatími skrifstofu

Mánudaga – fimmtudaga
10:00-11:30

Sími: 578-2700

Hafðu samband

skrifstofa@fjolnir.is

Translate »