Paraskautun á EM
Júlía Sylvía og Manuel tóku þátt fyrir Íslands hönd á Evrópumóti sem fór fram í Tallin 28. janúar til 2. febrúar. Með þátttökunni voru þau fyrsta skautaparið til að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópumóti í listskautum. Enduðu þau í 18. sæti með 48,58 stig í stutta prógramminu sínu og komust því miður ekki áfram en 16 efstu komust áfram til að taka frjálsa prógrammið. Þrátt fyrir að hafa ekki komist áfram mega þau vera stolt af frammistöðu sinni og fengu þau dýrmæta reynslu fyrir framhaldið.
Skautahlaup og Samhæfður skautadans/Synchro
Í lok janúar byrjuðu námskeið hjá Fjölni bæði í samhæfðum skautadans og einnig í skautahlaupi. Voru námskeiðin til lok febrúar og verður það endurtekið núna eftir páska og verður námskeiðin frá 23.apríl og út maí. Skráning er hafin inn á XPS
Norðurlandamót 2025
5. – 9. febrúar fór fram Norðulandamót sem var haldið í Asker í Noregi. Tveir keppendur frá Fjölni, Arna Dís og Elín Katla, fóru fyrir hönd Íslands. Góð reynsla fyrir þessa skautara og náði Elín þeim árangri að fá hæstu heildarstig sem íslenskur skautari hefur fengið í Advanced Novice flokki á Norðurlandamóti. Nánar er hægt að lesa um mótið hér: Norðurlandamót 2025 – Ungmennafélagið Fjölnir – fjolnir.is
Vormót ÍSS og Bikarmeistarar
Helgina 28. febrúar til 2. mars fór fram Vormót ÍSS á Akureyri. Fóru 24 keppendur frá Fjölni sem tóku þátt. Bendum á færsluna um mótið hér: Fjölnir Bikarmeistarar í listskautum! – Ungmennafélagið Fjölnir – fjolnir.is
Stóðu allir keppendur Fjölnis sig með príði og voru félaginu til fyrirmyndar að öllu leiti. Viljum við nýta tækifærið og þakka þeim sjálfboðaliðum sem hjálpuðu til á Akureyri í þessari ferð.
Með þeim árangri sem okkar skautarar náðu á þessu móti sem og fyrri mótum náði félagið þeim glæsilega árangri að tryggja sér bikarmeistaratitilinn árið 2025. Var þetta þriðja árið í röð sem Fjölnir verður bikarmeistari í listskautum!
Öskudagsball
Á öskudaginn héldum við öskudagsball á skautasvellinu og var góð og skemmtileg stemming sem skapaðist þar. Þökkum öllum sem gerðu sér leið á ballið og gerðu þetta að þeirri skemmtun sem þetta var.
Sonja Henie Trophy 2025
Sonja Henie Trophy fór fram í Osló dagana 6.mars – 9.mars og átti Fjölnir keppendur á mótinu. Ermenga Sunna tók þátt í Basic Novice Girls á meðan að Arna Dís og Elín Katla tóku þátt í Advanced Novice Women.
Ermenga hóf keppni af okkar keppendum og með sínu prógrammi fékk hún 30,51 stig sem skilaði henni 14.sæti af 47 keppendum.
Í stutta prógramminu fékk Elín Katla 33,70 stig sem skilaði henni 5.sæti eftir fyrri daginn. Arna Dís fékk 25,28 stig fyrir sitt stutta prógram og var hún í 19. sæti að loknum fyrsta degi.
Á seinni keppnisdeginum var frjálsa prógrammið á dagskrá og fékk Arna Dís 53,86 stig fyrir það. Skilað það henni upp um tvö sæti eða í 17. sætið með 79,14 heildarstig.
Elín Katla fékk 64,91 stig fyrir sitt frjálsa prógramm og endaði hún því með heildarstig upp á 98,61 stig og endaði hún í 5. sæti með þeim stigafjölda.
Frábært árangur og reynsla fyrir báða keppendur og stóðu þær sig með prýði.
Mannabreytingar í stjórn og starfskrafti
Þann 6. mars var haldinn aðalfundur listskautadeildar. Á þeim fundi urðu breytingar á stjórn deildarinnar. Nýir meðlimir í stjórn eru Fanndís Ýr Brynjarsdóttir og Evelina Kreislere. Við þökkum fráfarandi stjórnar meðlimum kærlega fyrir sitt framlag í stjórnarstarfinu seinasta árið!
Einnig er breyting hjá starfsmönnum deildarinnar en Leifur sem hefur starfað sem skautastjóri síðan í ágúst 2023 mun færa sig um set innan Fjölnis og því ekki starfa lengur sem skautastjóri fyrir deildina. Seinasta árið hefur hann sinnt stöðu íþróttastjóra Fjölnis meðfram skautastjóra stöðunni en mun hann alfarið færa sig yfir á skrifstofu félagsins þar sem hann mun þó auðvitað ennþá vera innan handar fyrir listskautadeildina eins og aðrar deildir félagsins ef eitthvað er. Hægt er að senda tölvupóst á skautastjori@fjolnir.is eða listskautar@fjolnir.is ef hafa þarf samband vegna einhverra mála er við kemur listskautadeildinni.
Framundan
Næsta laugardag, 5.apríl, mun Kristalsmótið vera haldið af okkur í Fjölni á skautasvellinu í Egilshöll. Og af þeim sökum verða ekki æfingar en við hvetjum alla til að mæta og fylgjast með mótinu. Upplýsingar um dagskrá er hægt að finna á hér á heimasíðu Fjölnis: Kristalsmót 2025 – Dagskrá og keppnisröð – Ungmennafélagið Fjölnir – fjolnir.is
Fjölskyldudagur skautaskóla er svo á dagskrá 12.apríl og eiga upplýsingar um það að koma þegar nær dregur.
Nú er að koma mikið af rauðum dögum í tengslum við t.d. páskana og minnum við því á að á rauðum dögum er heilt yfir frí á æfingum nema annað sé tekið fram.
Grunnpróf fer einnig fram í apríl og verða upplýsingar sendar með það til þeirra sem eiga að skoða það, en einnig er hægt að ræða við þjálfara um það mál ef þið hafið einhverjar spurningar.
Stefnt er að halda vorsýninguna árlegu þann 31.maí en frekari upplýsingar um það munu koma þegar nær dregur.


