Þorrablót Grafarvogs var haldið hátíðlegt á laugardagskvöldið en í ár var þemað 80‘s. Það var algjörlega valfrjálst að klæða sig eftir þemanu en það voru þónokkrir sem fóru „all-in“ og mættu eins og þau hafi komið með tímavél frá 9. áratug síðustu aldar!
Múlakaffi sá um matinn og bauð upp á alvöru þorramat, hákarl, brennivín og með því en það var líka annað í boði fyrir þá sem vildu ekki fara í þorramatinn. Frábær vegan réttur og dýrindis lambalæri voru einnig á boðstólnum.
Dagskrá kvöldsins var alls ekki af verri endanum en einvala lið frábærra listamanna steig á svið og sá um að gestir skemmtu sér vel! Regína Ósk stýrði kvöldinu og hljómsveit kvöldsins var Nýju fötin keisarans. Margrét Eir steig fyrst á svið og tók á móti gestum þegar þeir mættu. 80‘s kóngurinn sjálfur, Eyfi, sá um brekkusöng kvöldsins. Grafarvogsprinsinn Kristmundur Axel steig næstur á svið og á eftir honum var það leynigestur kvöldsins sem var enginn annar en Herbert Guðmundsson, varla hægt að halda 80‘s Þorrablót án þess að hann mæti á svæðið. Þau Friðrik Dór, Sigga Beinteins og Daníel Ágúst stigu síðan á svið á eftir þeim og gjörsamlega trylltu lýðinn!
Við viljum þakka öllum sem komu á blótið fyrir frábært kvöld og við hlökkum mikið til næsta árs!
Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndir frá kvöldinu