Fjögur aldursflokkamet á Áramóti Fjölnis
Frjálsíþróttadeildin hélt sitt árlega Áramót í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal þann 28. desember 2023.
Frábær árangur náðist á mótinu en á því féllu fjögur aldursflokkamet. Hæst ber að nefna að Fjölnismaðurinn Grétar Björn Unnsteinsson bætti 11 ára gamalt aldursflokkamet í stangarstökki 16-17 ára pilta með stökki upp á 4,32 metra. Einnig féll 16 ára gamalt met í 3000 m hlaupi 15 ára pilta, 9 ára gamalt met í 200 metra hlaupi 13 ára stúlkna auk þess sem tvöfalt met var sett í 60 m grindahlaupi, bæði í flokki 18-19 ára stúlkna og 20-22 ára flokki, en eldra metið var 16 ára gamalt.
Fjönisfólk stóð sig vel á mótinu og fór heim með 3 gullverðlaun auk þess sem 7 persónuleg met voru sett.
Veittur er farandbikar fyrir besta árangur mótsins og í ár var það FH-ingurinn Irma Gunnarsdóttir sem tók bikarinn heim. Hún stökk 6,11 m í langstökki kvenna og fékk fyrir það 1023 WA stig.

