Við endurbirtum hér grein frá TSÍ. https://tsi.is/2023/11/tennisspilari-manadarins-saule-zukauskaite-nov23/
Tennisspilari mánaðarins í nóvember er Saulé Zukauskaité sem er 15 ára gömul og hefur verið að æfa tennis frá því að hún var fjögurra ára og er ennþá á fullu í tennis í dag. Saulé sagði fyrst frá því að pabbi hennar hefði tekið eftir því hversu sterk hún var þegar hún var lítil og þótti honum tennis vera fullkomin íþrótt fyrir hana. Í dag æfir Saulé hjá Fjölni og hefur gert það síðastliðin 5 ár en fyrstu árin hennar í tennis æfði hún í Litháen.
Aðspurð um uppáhalds augnablikið hennar í tennis sagði Saulé frá því þegar hún vann sitt fyrsta alþjóðlega mót sem kallast Ten-Pro sem haldið var í Georgíu í september í fyrra í U16 flokki. Hvað varðar skemmtilegustu keppnisferðina nefndi Saulé ferð til Coventry þar sem hún keppti á International Children‘s Games en kvaðst hún vera virkilega þakklát fyrir reynsluna, tækifærið að kynnast nýju fólki og fá að styðja liðið sitt. Saulé talaði sömuleiðis um skemmtilegar tennisferðir til Sviss og París en hún tók annað sætið í U16 í Sviss og í U16 í París í ágúst síðastliðnum.
Þegar Saulé var spurð um ráð til annarra tennisspilara nefndi hún mikilvægi þess að ferðast um heiminn og spila með ólíkum spilurum. Saulé var einnig spurð hver uppáhalds meðspilari hennar væri en nefndi hún þá vinkonu sína Ívu Jovisic en þær hafa keppt mikið saman. Saulé sagði frá því að uppáhalds undirlagið hennar væri hard court en hún æfir mest á því undirlagi en sagði hún fljótt frá því að að hún kunni illa að spila á leirvöllum þar sem hún fær sjaldan tækifæri til að spila á slíkum völlum. Hvað varðar uppáhalds tennisspilara hennar nefndi Saulé spænska tennisspilarann Rafael Nadal en dáist hún einna helst að hugarfarinu hans.
Þessa dagana er Saulé búin að vera að keppa á alþjóðlega Ten-Pro mótinu í Rafa Nadal akademíunni en hún verður þar frá 20.nóvember til 3. desember en þar voru með henni þrír aðrir Íslendingar eða þeir Daniel Pozo, Ómar Páll og Andri Mateo. Saulé er ánægð með að fá að vera þarna með vinum sínum þar sem þau geta stutt hvort við annað í mótinu. Saulé sagði loks frá því að tennis geri hana mjög hamingjusama og hafi hún lært mikið af íþróttinni. Hún nefndi einnig að henni fyndist sérstaklega gaman að keppa og undirbúa sig fyrir mót en þá sé hún með hvata til að leggja enn meira á sig.
Uppáhalds skot: Forhönd og uppgjafir
Uppahalds tennisspilari: Rafael Nadal
Uppáhalds undirlag: Hard court
Ráð til að vera betri í tennis: Spila við ólíka einstaklinga