Skáksamband Stokkhólms bauð Skákdeild Fjölnis að senda þátttakendur á skákhátíðina Stockhloms Ladies Weekend sem haldin verður í fyrsta skipti nú um helgina 2. – 3. sept.

Skákdeild Fjölnis tók boðinu og sendir til leiks fjórar skákkonur sem flugu út í morgun, föstudag. Þetta eru þær Tinna Kristín Finnbogadóttir, Liss Acevedo Méndez, Sigríður Björg Helgadóttir og Sóley Kría Helgadóttir. Tefldar verða 7 umferðir á mótinu með 30 +10 sek. umhugsunartíma. Fjórar skákir á morgun laugardag og þrjár á sunnudag. Það er skáksamband Stokkhólmsborgar sem stendur fyrir þessari kvennaskákhátíð og væntir þess að viðburðurinn verði árlegur. Þau Tomas Silfver og Pía Cramling fv. heimsmeistari kvenna eru í forsvari hátíðarinnar en þau þekkja bæði vel til þeirrar breiddar stúlkna og kvenna sem tefla undir merkjum Skákdeildar Fjölnis.