Það er heldur betur viðburðarík helgi hjá okkur á skautasvellinu um helgina. Um 110 keppendur voru skráðir til leiks á Kristalsmóti og Vormóti ÍSS og fór fyrri hluti mótanna fram í dag.
Keppni á Kristalsmótinu hófst kl. 08:00 í morgun og voru það keppendur í 6 ára og yngri og 8 ára og yngri sem fóru fyrstir inn á ísinn. Fjórir keppendur tóku þátt í flokki 6 ára og yngri. Í flokki 8 ára og yngri voru 10 keppendur, Perla Gabriela Giraldo Ægisdóttir var okkar fulltrúi í þeim hópi og stóð sig með prýði. Næst tók við keppni í flokki 10 ára og yngri voru 14 keppendur skráðir til leiks og áttum við þar 4 keppendur, Örnu Dís Gísladóttur, Margréti Ástrósu Magnúsdóttur, Selmu Kristínu S. Blandon og Unu Lind Otterstedt, sýndu þær æfingar sýnar af miklu öryggi og stóðu sig vel. Keppendur í flokkum 6, 8 og 10 ára og yngri fengu viðurkenningar fyrir þátttöku en ekki er raðað í verðlaunasæti í þeim flokkum. Því næst tók við keppni í flokki 12 ára og yngri og voru þar skráðar til leiks 11 stúlkur og 1 drengur, Líva Lapa og Ísabella Jóna Sigurðardóttir úr Fjölni kepptu í þeim flokki og stóðu sig mjög vel og hreppti Ísabella Jóna fyrsta sætið. Að lokum tók við keppni í SO flokkum og voru þar skráðar til leiks 12 stúlkur og 1 drengur. Eftir það var gert hlé á Kristalsmóti þangað til í fyrramálið.
Eftir hádegi var komið að keppni á Vormóti ÍSS. Keppni hófst á skylduæfingum hjá Advanced Novice, þar voru aðeins þrír skautarar. Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni var önnur á ísinn og gekk ágætlega, hún endaði í þriðja sæti eftir fyrri daginn með 21,45 stig. Næst tóku við skylduæfingar hjá Junior Ladies þar sem voru einnig aðeins þrír skautarar. Þar áttum við tvo fulltrúa, þær Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur og Lenu Rut Ásgeirsdóttur. Lena var fyrst á ísinn og skautaði gott prógram náði nýju persónulegu meti í stuttu prógrammi með 27,76 stig. Júlía Sylvía var næst á ísinn og gekk ágætlega og endaði með 32,88 stig eftir fyrri daginn. Eru þær í öðru og þriðja sæti eftir fyrri keppnisdag. Næst á ísinn komu Senior Ladies með skylduæfingar og voru þar tveir skautarar skráðir til leiks, Herdís Birna Hjaltalín tók þátt á sínu fyrsta móti sem Senior skautari. Herdísi gekk nokkuð vel og endaði með 31,35 stig og í fyrsta sæti eftir stutt prógram.
Næst tók við keppni í Basic Novice, þar voru 13 keppendur og áttum við tvær Fjölnisstelpur í þeim flokki, þær Elvu Íseyju Hlynsdóttur og Írisi Maríu Ragnarsdóttur. Stelpurnar stóðu sig nokkuð vel en ansi mjótt var á milli stiga hjá keppendum í flokknum. Endaði Íris María í 8. sæti með 19,34 stig og Elva Ísey í 3. sæti með 24,10 stig. Næst stigu á ísinn keppendur í Intermediate Novice þar sem 5 skautarar tóku þátt, þar áttum við þrjá keppendur þær, Rakel Söru Kristinsdóttur, Andreu Marín Einarsdóttur og Söndru Hlín Björnsdóttur, stóðu stelpurnar sig vel og lenti Rakel Sara í öðru sæti með 24,04 stig. Sandra Hlín og Andrea Marín áttu ekki jafn góðan dag, en eiga nóg inni fyrir okkur næst. Að lokum var keppni í Intermediate Ladies og tók þar 1 skautari þátt. Eftir það var gert hlé á keppni þangað til í fyrramálið.
Á sunnudeginum hélt Kristalsmótið áfram og byrjaði á keppni í flokki 14 ára og yngri þar sem voru 7 keppendur, þar áttum við tvo skautara, Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur og Kaylu Amy Eleanor Harðardóttur. Stóðu þær sig vel og lenti Ásta Lovísa í fyrsta sæti í flokknum. Næst var keppni í flokkum 15 ára og eldri og 25 ára og eldri, en þar voru tveir keppendur í sitthvorum flokknum. Alrún María Skarphéðinsdóttir keppti í flokki 25 ára og eldri og skautaði gott prógram og var hún í fyrsta sæti. Þar með var keppni á Kristalsmótinu 2021 lokið.
Þá var komið að seinnihluta Vormóts ÍSS. Fyrst var keppni í yngri flokkunum Chicks og Cubs, en ekki eru veitt verðlaun eða birt úrslit í þeim flokkum. Í flokki Chicks voru 5 skautarar, þar á meðal okkar Ermenga Sunna Víkingsdóttir sem stóð sig vel. Gaman var að sjá fjölgun í flokknum milli móta. Næsti var keppni í Cubs flokkum, þar voru 7 skautarar, 6 stúlkur og 1 drengur. Okkar skautarar, Arína Ásta og Elín Katla stóðu sig vel. Að því loknu var komið að keppni í frjálsu prógrammi hjá Advanced Novice, Junior og Senior sem skautuðu stutta prógrammið með skylduæfingunum á laugardeginum. Tönju Rut skautaði gott prógram með minniháttar mistökum í Advanced Novice og fékk hún 36,85 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 58,30 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í þriðja sæti í flokknum. Lena Rut var aftur fyrst á ísinn í Junior Ladies og gekk ágætlega og endaði hún með 41.65 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 69,41 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í þriðja sæti í flokknum. Júlía Sylvía var önnur á ísinn og og gekk ágætlega, átti m.a. góða tilraun í þrefalt salchow og endaði hún með 55,37 stig fyrir frjálsa prógramið og endaði hún með 88,25 í heildarstig fyrir bæði prógröm og í öðru sæti í flokknum. Að lokum var keppni í Senior Ladies og var Herdís Birna önnur á ísinn, gekk henni vel þó stökkin hafi aðeins verið að stríða henni. Fékk hún 66,40 stig fyrir frjálsa prógramið og fékk hún samanlagt 97,75 fyrir bæði prógröm og endaði í 2. sæti á mótinu.
Yfir heildina gekk Fjölnisskauturum mjög vel og mátti sjá miklar framfarir frá seinasta móti, þá sérstaklega í Félagalínunni þar sem ekki hefur verið mót síðan í september. Við þökkum kærlega fyrir samveruna á mótinu, þá keppendum, þjálfurum, foreldrum, sjálfboðaliðum og starfsfólki.