Listhlaup á skautum á Reykjavíkurleikunum
Um helgina var keppt í listhlaupi á skautum á Reykjavíkurleikunum. Keppnin fór fram á skautasvellinu í Laugardal. Tíu Fjölnisstúlkur tóku þátt á mótinu í 6 keppnisflokkum.
Á laugardeginum hófst keppni í Advanced Novice þar sem keppendur sýndu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir fór fyrst á ísinn, fékk 17,01 stig og var hún í 3. sæti eftir daginn. Næst hófst keppni í Junior en í þeim flokki keppa tvær stúlkur úr Fjölni, Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir. Júlía Sylvía hóf keppni, fékk 34,35 stig og var í 2. sæti eftir daginn og Lena Rut sem var þriðja á ísinn, fékk 22,32 stig og var í 4. sæti.
Í flokki Basic Novice keppti Elva Ísey Hlynsdóttir en hún var tíunda í röðinni á ísinn. Hún bætti sitt persónulega stigamet, fékk 26,17 stig og var hún í 2. sæti. Síðasti flokkurinn sem Fjölnir átti keppendur í á laugardeginum var Intermediate Novice en í þeim flokki kepptu 3 stúlkur úr Fjölni; Andrea Marín Einarsdóttir, Rakel Sara Kristinsdóttir og Sandra Hlín Björnsdóttir. Rakel Sara hóf keppni, sló sitt persónulega stigamet, fékk 24,65 stig og lenti hún í 1. sæti. Sandra Hlín fékk 21,87 stig og var í 4. sæti og Andrea Marín sem bætti sitt persónulega stigamet, fékk 18,40 stig og var í 5. sæti.
Á sunnudeginum hófst keppni í yngstu keppnisflokkunum, Chicks og Cubs. Ermenga Sunna Víkingsdóttir keppti í Chicks og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir og Arína Ásta Ingibjargardóttir kepptu í Cubs. Ekki eru veitt verðlaun fyrir þessa flokka en þær stóðu sig allar með mikilli prýði.
Keppni á Reykjavíkurleikunum lauk svo á frjálsa prógrami í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior. Tanja Rut fékk 36,12 stig fyrir frjálsa prógramið og samanlagt 53,13 stig og var hún í 3. sæti samanlagt í flokki Advanced Novice. Lena Rut fékk 41,97 stig og samanlagt 64,29 stig og var hún í 4. sæti í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 68,30 stig og samanlagt 102,65 stig og var hún í 2. sæti í flokki Junior.
Eftir mótið er Fjölnir í 2. sæti í bikarmótaröðinni á eftir Skautafélagi Akureyrar sem er í 1. sæti.