Það hefur heldur betur reynt á þolrif okkar í kjölfar Covid-19 og óhætt að segja að flest erum við orðin langþreytt á þeim hömlum sem hafa verið í samfélaginu í kjölfar þess. Öll erum við sammála um mikilvægi sóttvarnareglna og tilskipana, og við skulum fylgja þeim í einu og öllu, en mikið verður það gott þegar daglegt líf verður aftur sem líkast því sem gerðist á Covid lausum tímum hér áður.

Knattspyrnudeild Fjölnis ákvað fyrr á árinu að blása enn frekari vind í seglin með endurskipulagningu starfsins sem fól meðal annars í sér að fjölga yfirþjálfurum úr einum í tvo sem og að bæta og styrkja innviði starfsins. Því miður hefur skráður iðkendafjöldi fallið umtalsvert frá fyrri árum í kjölfar Covid-19 og það ekki bara í fótboltanum heldur einnig öðrum greinum. Það er ekkert launungamál að slík fækkun er heilmikið högg fyrir deildina og áhyggjuefni útaf fyrir sig en mestar áhyggjur höfum við af krökkunum sjálfum.

Mikilvægi íþrótta er óumdeilt bæði fyrir líkamlega-, andlega- og félagslega vellíðan svo ekki sé minnst á forvarnargildið. Mikilvægt er að við sem foreldrar, forráðamenn og samfélag missum ekki þessa krakka alfarið úr íþróttum.

Þeir krakkar sem eru að æfa hafa fengið heimaæfingar frá sínum þjálfurum og haldnir hafa verið viðburðir á netinu t.d. Kahoot spurningakeppni og fyrirlestrar svo eitthvað sé nefnt. Þjálfarar og starfsfólk Fjölnis hefur gert sitt best og reynt að halda uppi starfinu þrátt fyrir takmarkanir og hafa ýmsar nýjungar og skemmtilegar hugmyndir litið dagsins ljós.

Hvet alla krakka til að vera dugleg að fara út og hreyfa sig, hvet foreldra og forráðamenn að reima á sig skóna og taka þátt í æfingum og endilega skrá iðkendur til leiks svo þeir geti fengið sent heimaæfingar og tekið þátt í þeim viðburðum sem haldnir eru á vegum flokkana í netheimum.

Um leið og gefið er grænt ljós á að æfa aftur í hópum þá getum við ekki beðið eftir að komast aftur út á völl en þangað til munum við áfram nýta við öll þau tæki og tól sem við höfum í þágu iðkenda félagsins okkar.

#FélagiðOkkar

Sævar Reykjalín
Formaður Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Fjölnis