Pepsi Max deild karla
12. umferð
HK – Fjölnir
Sunnudaginn 16. ágúst kl. 17:00 í Kórnum
Pepsi Max deild karla er farin aftur af stað eftir tæplega þriggja vikna hlé. Á sunnudag fer Fjölnir í Kórinn og leikur við HK í 12. umferð deildarinnar. Leikjum Fjölnis gegn ÍA og Stjörnunni í 10. og 11. umferð hefur ferið frestað um óákveðinn tíma. Síðasti leikur Fjölnis í deildinni fór fram 27. júlí, lokatölur 1-3 fyrir Val. Ingibergur Kort Sigurðsson fékk rautt spjald í þeim leik og verður hann í leikbanni gegn HK. Degi áður en hlé var gert á íþróttaiðkun með snertingum féll Fjölnir úr leik í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar með 2-0 tapi gegn KR. Leikið var fyrir luktum dyrum og verður það sama uppi á teningnum á sunnudag.
Staðan í botnbaráttunni breyttist lítið á milli umferða. Fjölnir, Grótta og HK töpuðu öll sínum leikjum í síðustu umferð sem leikin var. Grótta lék sinn leik í 12. umferð í gærkvöldi og gerði 1-1- jafntefli við Stjörnuna. Enn er Fjölnir fimm stigum frá öruggu sæti. Ekki þarf að eyða mörgum orðum í mikilvægi leiksins á sunnudag. Fjölnir situr á botni deildarinnar með þrjú stig, fimm stigum á eftir HK sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið með jafn mörg stig og KA sem leikur í dag, laugardag, gegn Val. Að leik loknum í Kórnum verður Fjölnir tveimur, fimm eða átta stigum frá HK.
HK hefur unnið tvo leiki í sumar, gert tvö jafntefli og tapað fimm leikjum. Sigurleikir HK komu gegn KR og Breiðabliki. Í síðasta deildarleik HK tapaði liðið 3-2 fyrir Fylki. Í millitíðinni lagði liðið Aftureldingu í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Á milli leikja hafa orðið mannabreytingar hjá HK. Bakvörðurinn Birkir Valur Jónsson hefur verið lánaður til Slóvakíu og til félagsins er kominn miðvörðurinn Martin Rauschenberg frá Stjörnunni.
Fjölnismenn ættu að þekkja ágætlega til nokkurra leikmanna HK liðsins. Þeir Birnir Snær Ingason, Arnar Freyr Ólafsson, Bjarni Gunnarsson og Guðmundur Þór Júlíusson leika í dag með HK en ólust allir upp í Fjölni. Sá síðastnefndi mun ekki spila á sunnudag vegna leikbanns. Einnig má nefna Pétur Guðmundsson þegar kemur að leikmönnum sem leikið hafa bæði fyrir HK og Fjölni. Pétur er í dag dómari í efstu deild karla. Þjálfari HK er Brynjar Björn Gunnarsson.
Fjölnir og HK hafa einungis tvisvar sinnum mæst áður í A-deild. Viðureignirnar fóru fram sumarið 2008 og hafði Fjölnir betur í þeim báðum. Leikur félaganna á Kópavogsvelli það sumar er merkilegur fyrir þær sakir að um er að ræða stærsta sigur Fjölnis í efstu deild, lokatölur 1-6. Gunnar Már Guðmundsson, Magnús Ingi Einarsson, Ólafur Páll Johnson, Ólafur Páll Snorrason og Pétur Georg Markan (2) skoruðu mörk Fjölnis í leiknum.
Leikurinn gegn HK verður 200. leikur Ásmundar Arnarssonar sem þjálfari Fjölnis. Ásmundur var fyrst ráðinn til Fjölnis fyrir tímabilið 2005 og stýrði hann Fjölni út keppnistímabilið 2011. Ási er nú á sínu öðru tímabili eftir endurkomu í Grafarvog. Það má þó færa fyrir því góð rök að 200. leikurinn hafi verið fyrir tveimur leikjum síðan. Einhverra hluta vegna var Ásmundur skráður aðstoðarþjálfari í leik Fjölnis á Seltjarnarnesi sumarið 2011 og vegna marmarkmannsvandræða var hann skráður sem varamarkvörður í útileik Fjölnis gegn KA árið 2005. Skráður þjálfari í leiknum á Akureyri var fyrrverandi markvörðurinn Jón Þorbjörnsson. Í tveimur leikjum hefur Ási verið fjarverandi vegna leikbanns.
Eins og áður segir verður leikið án áhordenda. Það dugir því lítið annað fyrir okkur stuðningsmenn en að senda leikmönnum og starfsliði hugheilar baráttukveðjur. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Áfram Fjölnir!
#FélagiðOkkar
Grétar Atli Davíðsson
Leikmannahópur Fjölnis
1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)
4 – Sigurpáll Melberg Pálsson
5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson
6 – Grétar Snær Gunnarsson
7 – Ingibergur Kort Sigurðsson
8 – Arnór Breki Ásþórsson
9 – Jón Gísli Ström
10 – Viktor Andri Hafþórsson
11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson
12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)
14 – Lúkas Logi Heimisson
16 – Orri Þórhallsson
17 – Valdimar Ingi Jónsson
19 – Daníel Smári Sigurðsson
20 – Péter Zachán
21 – Christian Sivebæk
23 – Örvar Eggertsson
25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)
28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði
29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði
31 – Jóhann Árni Gunnarsson
32 – Kristófer Óskar Óskarsson
42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson
Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson