Upphitun. Fjölnir – Valur

Pepsi Max deild karla

9. umferð

Fjölnir – Valur

Mánudaginn 27. júlí kl. 19:15 á Extra vellinum

Í síðustu umferð náði Fjölnir í sitt þriðja stig í sumar er liðið gerði 2-2 jafntefli við KR í Vesturbænum (hlekkur á mörkin úr leiknum). Frammistaðan gegn KR var til fyrirmyndar og þarf baráttan, aginn og viljinn sem liðið sýndi í síðasta leik að einkenna Fjölni í öllum leikjum sem eftir eru af tímabilinu. Margt jákvætt var við spilamennsku Fjölnis gegn KR. Ingibergur Kort Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild eftir frábæra fyrirgjöf Hallvarðs Óskars Sigurðarsonar. Hitt mark Fjölnis gerði Jóhann Árni Gunnarsson. Einnig var ánægjulegt að sjá Torfa Tímoteus Gunnarsson koma aftur inn á völlinn eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Torfi lék síðustu fimmtán mínúturnar gegn KR. Viktor Andri Hafþórsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði í efstu deild. Viktor lék fyrstu sextíu mínútur leiksins. Gera þurfti breytingu á byrjuarliði Fjölnis skömmu fyrir leikinn gegn KR þar sem Christian Sivebæk meiddist í upphitun. Undirrituðum er ekki kunnugt um alvarleika meiðslanna. Orri Þórhallsson sem var frá vegna meiðsla í leiknum á undan kom inn í byrjunarliðið í stað Danans.

Jafnteflið dugði þó ekki til að minnka bilið upp í öruggt sæti, á milli umferða hefur bilið upp í 10. sæti aukist um eitt stig. KA og Grótta náðu bæði einu stigi úr sínum viðureignum og HK vann sinn leik. Áfram stöndum við Fjölnismenn í brekku og reikna má með að baráttan fyrir sæti í deildinni að ári standi alveg til loka mótsins. Því verður að leggja allt í sölurnar á mánudaginn þegar Valur kemur í heimsókn.

Andstæðingurinn

Aðra umferðina í röð mætir Fjölnir toppliði deildarinnar. Valur skaut sér í 1. sæti með sigri á Fylki í síðustu umferð. Valur hefur leikið átta leiki í sumar; fimm sigrar, eitt jafntefli og tvö töp. Staðan í deildinni mun þó eitthvað breytast áður en flautað verður til leiks í Grafarvogi á mánudag þar sem tveir leikir fara fram á sunnudag. Valur er annað af tveimur liðum deildarinnar sem er með fullt hús stiga á útivöllum. Því verður að breyta á mánudaginn. Öll stig Fjölnis í sumar hafa komið á útivöllum. Valur er það lið sem skorað hefur flest mörk í deildinni í sumar (ásamt ÍA). Þriðjung marka Vals hefur Patrick Pedersen skorað. Pedersen fór meiddur af velli í síðasta leik Vals, óvíst er hvort hann taki þátt í leiknum á mánudag. Þjálfari Vals er Heimir Guðjónsson.

Fyrri viðureignir félaganna

Alls hafa Fjölnir og Valur mæst sextán sinnum í deildarkeppni. Valur hefur unnið helming viðureignanna, Fjölnir unnið þrjár og fimm hafa endað með jafntefli. Leikir Fjölnis og Vals hafa oftar en ekki einkennst af mikilli markaskorun. Að meðaltali eru skoruð tæplega fjögur mörk í leikjum félaganna. Aldrei hafa liðin gert markalaust jafntefli. Í ljósi sögunnar má því búast við markaleik. Fjölmennum á völlinn, styðjum okkar lið og vinnum saman að því að gulir skori fleiri mörk en rauðir á mánudaginn.


Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér. Einnig verður hægt að kaupa miða við inngang.

Staðan í deildinni áður en 9. umferðin hefst.

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson