Upphitun. KR – Fjölnir

Pepsi Max deild karla

8. umferð

KR – Fjölnir

Miðvikudaginn 22. júlí kl. 20:15 á Meistaravöllum

Áfram erum við Fjölnismenn staddir í brekku eftir 0-3 tap gegn FH í síðustu umferð. Þrátt fyrir dapurt gengi í upphafi móts er það jákvætt að ennþá er stutt upp í öruggt sæti. HK og Grótta hafa einnig verið í töluverðu basli í upphafi móts, það er jákvætt í annars dapurri byrjun Fjölnis á Íslandsmótinu. Fjölnir situr í neðsta sæti deildarinnar með tvö stig eftir sjö leiki. HK situr í 10. sæti deildarinnar með fimm stig, einu stigi meira en Grótta. Staðan á botni deildarinnar getur því breyst skyndilega.

Andstæðingurinn

KR er ríkjandi Íslandsmeistari og situr á toppi deildarinnar með fimmtán stig eftir sex leiki. KR hefur tapað einum leik í sumar. Þá tapaði liðið mjög óvænt 0-3 gegn HK á heimavelli. Í síðustu umferð vann KR 0-3 sigur í Árbæ. Miðjumaðurinn Pablo Punyed hefur verið atkvæðamesti leikmaður KR í ár. Pablo, sem hóf feril sinn á Íslandi með Fjölni sumarið 2012, hefur skorað fjögur mörk í deildinni í sumar. Þjálfari KR er Rúnar Kristinsson. Markmið Rúnars og KR er að verja Íslandsmeistaratitil sinn, það hefur KR aldrei tekist undir stjórn Rúnars. Vonandi tekst Fjölni hindra Vesturbæinga í titilvörn sinni. Leikurinn á miðvikudag verður fyrri viðureign félaganna á aðeins átta dögum. KR og Fjölnir drógust saman í 16-liða úrsltum bikarkeppninnar og mætast á þeim vettangi fimmtudaginn 30. júlí.

Fyrri viðureignir liðanna

Síðustu þrír leikir Fjölnis og KR í A-deild hafa endað með jafntefli. Alls hafa liðin mæst fjórtán sinnum í efstu deild. KR hefur unnið helming viðureignanna, þrjár hafa endað með sigri gulra og fjórar með jafntefli. Fjölnir hefur áður komið á óvart á móti KR. Fyrsti heimaleikur Fjölnis í efstu deild var gegn Vesturbæjarliðinu. Fjölnir hafði lagt Þrótt í fyrstu umferð Íslandsmótsins sumarið 2008. Í annarri umferð komu KR-ingar í Grafarvog. KR komst yfir í fyrri hálfleik en Pétur Markan jafnaði fyrir Fjölni fimm mínútum síðar. Allt stefndi í jafntefli en í uppbótartíma síðari hálfleiks var víti dæmt á leikmann KR sem notað hafði hönd sína til að verja skalla Fjölnismanna. Úr vítaspyrnunni skoraði Gunnar Már Guðmundsson og allt ætlaði um koll að keyra í Grafarvogi. Lokatölur 2-1.

Fjölmennum í Vesturbæinn og hvetjum okkar pilta til sigurs.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson