Pepsi Max deild karla

3. umferð

Breiðablik – Fjölnir

Mánudaginn 29. júní kl. 19:15 á Kópavogsvelli

Fyrsti sigur Fjölnis í sumar kom síðastliðið miðvikudagskvöld er okkar piltar slógu Selfyssinga úr leik í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Lokatölur 3-2. Ásmundur Arnarsson stillti upp óbreyttu byrjunarliði í fyrstu tveimur umferðum Pepsi Max deildarinnar en í bikarleiknum gegn Selfossi voru gerðar þrjár breytingar á byrjunarliðinu. Úr byrjunarliðinu fóru Atli Gunnar Guðmundsson, Valdimar Ingi Jónsson og Grétar Snær Gunnarsson. Inn í liðið komu Viktor Andri Hafþórsson, Örvar Eggertsson og markvörðurinn efnilegi Sigurjón Daði Harðarson. Viktor og Sigurjón koma báðir úr 2001 árgangi Fjölnis, ásamt þeim Jóhanni Árna Gunnarssyni og Orra Þórhallssyni sem byrjað hafa alla leiki tímabilsins.

Sigurjón, sem fékk eldskírn í meistaraflokki með Vængjum Júpíters á síðasta tímabili, var að leika sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Fjölni. Þeir Örvar og Viktor voru báðir í byrjunarliði í fyrsta sinn í gulu treyjunni. Viktor skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki í sigrinum gegn Selfossi. Aðrir markaskorarar Fjölnis voru Jón Gísli Ström og Ingibergur Kort Sigurðsson. Leikurinn var hundraðasti sigurleikur Guðmundar Karls Guðmundssonar á hans ferli. Dregið hefur verið í 16-liða úrslit keppninnar og mætir Fjölnir KR í lok júlí.

Eftir jafntefli gegn Víkingi í fyrstu umferð og tap gegn Stjörnunni í öðrum leik sumarsins situr Fjölnir í 10. sæti deildarinnar með eitt stig. Breiðablik er eitt þriggja liða sem hefur unnið báða sína leiki í deildinni í ár. Blikar lögðu nýliða Gróttu 3-0 í fyrstu umferð áður en þeir lögðu Árbæinga 0-1. Þá bar Breiðablik sigurorð á Keflavík, 3-2, í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Nú er tími til kominn fyrir okkur Fjölnismenn að rétta hlut okkar í viðureignum við Breiðablik. Í átján deildarleikjum gegn Breiðabliki hefur Fjölnir unnið tvo leiki og hafa þrír leikir endað með jafntefli. Eitt skrautlegasta mark sem skorað hefur verið á Fjölnisvelli kom í sigri Fjölnis á Blikum í upphafi móts fyrir þremur árum þegar núverandi fyrirliði Fjölnis, Hans Viktor Guðmundsson, skoraði með bakinu. Í báðum sigrum Fjölnis á Breiðabliki hefur Hans Viktor skorað mark.

Á meðal manna sem spilað hafa fyrir bæði Fjölni og Breiðablik má nefna Kristófer Skúla Sigurgeirsson, Martin Lund Pedersen og Ágúst Þór Ágústsson. Þá lék Ásmundur Arnarsson nokkra leiki fyrir Breiðablik fyrir tveimur áratugum síðan.

Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

27 – Dagur Ingi Axelsson

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

33 – Eysteinn Þorri Björgvinsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson

Grétar Atli Davíðsson

Sjá einnig:

Fyrri viðureignir liðanna
Fjölnir á Facebook og Twitter
Viðburður á Facebook