Mjólkurbikar karla

32-liða úrslit

Fjölnir – Selfoss

Miðvikudaginn 24. júní kl. 19:15 á Extra vellinum

Þá er komið að því að Fjölnir hefji leik í Mjólkurbikar karla þetta árið. Líkt og önnur úrvalsdeildarlið kemur Fjölnir inn í bikarkeppnina í 32-liða úrslitum. Ásmundur Arnarsson hefur stillt upp sama byrjunarliði í fyrstu tveimur umferðum Pepsi Max deildarinnar. Athyglisvert verður að sjá hvort ný andlit komi inn í byrjunarliðið. Í tapinu gegn Stjörnunni í síðasta leik skoraði Jóhann Árni Gunnarsson sitt fyrsta mark í efstu deild og nýliðinn Örvar Eggertsson lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni. Fáir hafa leikið bæði fyrir Fjölni og Selfoss. Undirrituðum er ekki kunnugt um fleiri en Tómas Leifsson, Ragnar Heimi Gunnarsson, Ágúst Örn Arnarson og Geir Kristinsson, sem nú er formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fjölni, sem leikið hafa fyrir bæði félög.

Andstæðingurinn

Selfoss endaði síðasta tímabil í 3. sæti 2. deildar, einu stigi frá sæti í 1. deild. Selfoss lagði Snæfell 5-0 í fyrstu umferð bikarkeppninnar í ár. Í annarri umferð bar Selfoss sigurorð á Hvíta riddaranum, 0-1. 2. deild karla hófst í síðustu viku, þar unnu Selfyssingar 3-4 sigur á Kára. Þekktasti og besti leikmaður Selfoss er eflaust markahrókurinn Hrvoje Tokic. Tokic skoraði 24 mörk í 22 leikjum með Selfossi á síðasta tímabili. Framherjinn gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í sigri liðsins á Kára. Annar lykilmaður í liði Selfoss er hinn 17 ára Guðmundur Tyrfingsson. Guðmundur er einnig markaskorari og gerði hann fernu í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Þjálfari Selfoss er Dean Martin. Besti árangur Selfoss í bikarkeppni er að hafa leikið til undanúrslita árin 1969 og 2016.

Hvað segir sagan?

Fjölnir og Selfoss hafa mæst níu sinnum í deildar- og bikarkeppnum. Fjölnir hefur unnið fimm leki, Selfoss þrjá og einu sinni hefur leik lokið með jafntefli. Áhorfendur þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af jafntefli í leik liðanna á miðvikudag, leikið verður til þrautar verði jafnt að venjulegum leiktíma liðnum. Síðustu viðureign liðanna lauk með 3-0 sigri Fjölnis. Leikurinn var hluti af mögnuðum endaspretti Fjölnis í 1. deild karla haustið 2013 sem lauk með deildarmeistaratitli félagsins. Steinar Örn Gunnarsson er eini núverandi leikmaður Fjölnis sem var í leikmannahópi liðsins í umræddum leik. Einu sinni áður hafa Fjölnir og Selfoss mæst í bikarkeppni KSÍ. Liðin drógust saman í sömu umferð keppninnar árið 2011. Þeim leik lauk með 1-0 sigri Fjölnis. Það ár komst Fjölnir í 8-liða úrslit keppninnar.* Það er besti árangur Fjölnis í bikarkeppninni frá bikarúrslitaleikjunum á árunum 2007 og 2008. Kæra Fjölnisfólk, fjölmennum á völlinn, hvetjum félagið okkar til sigurs og leyfum okkur að dreyma.

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

27 – Dagur Ingi Axelsson

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

33 – Eysteinn Þorri Björgvinsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson

Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér. Rétt er að minna á að árskort á Extra völlinn gilda ekki á leiki í bikarkeppni.
Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

*Fjölnir fór einnig í 8-liða úrslit árið 2015.

Sjá einnig:

Fyrri viðureignir liðanna
Viðburður á Facebook
Fjölnir á Facebook og Twitter