Skákdeild Fjölnis í samstarfi við þjónustumiðstöina Miðgarð í Grafarvogi stóð í 16 sinn að skákmóti grunnskólanna í Grafarvogi, Miðgarðsmótinu sem haldið var í hátíðarsal Rimaskóla. Að þessu sinni tefldu 13 skáksveitir, skipaðar 6 liðsmönnum, alls um 80 nemendur á öllum grunnskólaaldri. Skákiðkun og skákkennsla er mismikil í grunnskólunum í Grafarvogi og styrkeliki sveitanna nokkuð eftir því. Í Rimaskóla er einhver lengsta samfellda skákhefð allra skóla og þær 6 skáksveitir sem skólinn sendi til keppni að þessu sinni voru allar býsna sterkar. Dalskóla var boðið að taka þátt í Miðgarðsmótinu í fyrsta sinn og mætti skólinn með tvær jafnar og efnilegar sveitir. Skáksveit Foldaskóla hélt forystunni á mótinu fyrri helming mótsins en það snerist við í 4. umferð af 6 þegar Rimaskóli A sveit vann innbyrðis viðureign 4-2 og kláraði svo dæmið í framhaldi með nokkuð öruggum sigri. Í lokaumferðinni áttust við Rimaskóli stúlknasveit og Rimaskóli B sveit þar sem síðarnefnda sveitin vann 5-1 sigur og sveitirnar skiptu um sæti. Foldaskóli og Rimaskóli C sveit deildu síðan með sér 4 – 5 sæti sem gáfu verðlaun.
Þjónustumiðstöðin Miðgarður gaf verðlaunagripi og veitingar og Skákdeild Fjölnis veitti 30 keppendum í 5 efstu skáksveitunum SAM-bíómiða í verðlaun. Það er mikill skákáhugi í grunnskólum Grafarvogs þegar á reynir enda skákin skemmtileg. Skákstjórar voru þeir Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og Ragnar Harðarson frá Miðgarði.