Minna og Daði íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar 2019
Íþróttafólk Fjölnis 2019 var heiðrað við hátíðlega athöfn föstudaginn 27. desember. Íþróttafólk frjálsíþróttadeildarinnar voru Vilhelmína Þór Óskarsdóttir og Daði Arnarson.
Vilhelmína er 21 árs gömul frjálsíþróttakona sem hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri og hefur síðustu ár einbeitt sér að keppni í hlaupum. Hefur hún náð mjög góðum árangri í 60, 100, 200 og 400m hlaupum. Á árinu 2019 hljóp hún 400m á 57,29sek sem gefur 965 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hana í 4. sæti á listanum yfir bestu tíma í 400m hlaupi innanhúss árið 2019. Vilhelmína eða Minna eins og hún er alltaf kölluð er í landsliði Íslands í hópi 4x400m boðhlaupskvenna. Hún var líka kjörin íþróttakona deildarinnar í fyrra.
Daði er tvítugur og hefur æft frjálsar íþróttir frá unga aldri. Hann hefur aðallega einbeitt sér að 800m hlaupi undanfarin ár en líka náð góðum árangri í 600m og 1500m hlaupum. Á þessu ári hljóp hann 600m á tímanum 1:22,18 sem gefur 929 IAAF stig sem er frábær árangur. Þessi árangur setur hann í annað sæti á listann yfir bestu afrek í 600m hlaupi innanhúss á þessu ári. Þess má geta að Daði tekur þátt í þjálfun yngri iðkenda deildarinnar og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim og er góð fyrirmynd.
Fjölnismaður ársins var að þessu sinni hjónin Lilja Björk Ólafsdóttir og Guðmundur Magni Þorsteinsson sem eru öflugir hlauparar í hlaupahópi Fjölnis. Þessi dugnaðarhjón tilheyra hópi fárra í heiminum sem klárað hafa sex stærstu marþon í heimi. Þau eru elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað. Hjónin, sem eru á sjötugsaldri, byrjuðu að hlaupa um fertugt og eru hvergi nærri hætt. Í Grafarvogi ólu þau upp börn sín fjögur og þegar þau voru að nálgast fertugt gafst loks tími fyrir áhugamál. Um leið og ungarnir voru flognir úr hreiðrinu reimuðu þau á sig hlaupaskóna og héldu af stað. Þau höfðu þá aldrei stundað hlaup en byrjuðu strax í hlaupahópi Grafarvogs, sem heitir nú hlaupahópur Fjölnis. Það var árið 1995 og hafa þau hlaupið meira og minna síðan.
Þau fundu sig vel í hlaupunum og áður en varði lá leiðin í maraþon. Það átti eftir að vinda upp á sig svo um munar. Sex stærstu hlaup heims eru í London, New York, Boston, Berlín, Tokýó og Chicago og hafa þau hjón klárað þau öll. Þessi hlaup eru fjölmennustu maraþonin og það var búinn til klúbbur fyrir fólk sem hefur klárað öll þessi hlaup, en klúbburinn heitir Abbott World Marathon Majors og má finna þar rúmlega þrjátíu Íslendinga. Aðeins sex þúsund manns í heiminum geta státað af að hafa klárað öll þessi stærstu hlaup heims. Líklega eru fá hjón á sjötugsaldri í þeim hópi og eru þau Lilja og Guðmundur elst íslenskra hjóna sem það hafa afrekað.
Frjálsíþróttadeildin óskar þeim til hamingju með valið.