Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019
Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019 er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir. Hún hefur tekið virkan þátt á mótum á árinu. Júlía Sylvía keppti á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún lenti í 6. sæti með 64,53 stig. Hún fór á sitt fyrsta Norðurlandamót í febrúar en þar hafnaði hún í 18. sæti með 66,50 stig. Nú í haust tók hún þátt á Haustmóti ÍSS, Vetrarmóti ÍSS og Íslandsmótinu. Hún hafnaði í 3. sæti á bæði Haustmótinu og Vetrarmótinu en á því síðara fékk hún 70,13 stig. Hún hefur því sýnt stöðugar framfarir á árinu.
Júlía Sylvía byrjaði að æfa skauta í Skautaskóla skautafélags Bjarnarins þegar hún var 6 ára. Hún var fljótlega færð yfir í framhaldshópana. Árið 2016 flutti hún með foreldrum sínum til Kanada og þar komst hún að í góðum skautaskóla þar sem Annie Barabé var yfirþjálfari. Júlía Sylvía flutti aftur til Íslands árið 2018 og byrjaði að æfa hjá Fjölni undir stjórn Gennady Kaskov og nú Svetlönu Akhmerovu.
Þegar hún var yngri stundaði hún fleiri áhugamál, æfði sund, leiklist, ballet og Tai Kwon Do en á síðustu árum hefur sífellt meiri tími farið í skautaiðkunina sem hún stundar af kappi. Önnur áhugamál hennar eru tónlist og Manga sögur og þættir.
Júlía Sylvía er metnaðargjarn iðkandi, leggur hart að sér og hefur sýnt framúrskarandi ástundun. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd og deildinni til mikilla sóma. Við óskum henni innilega til hamingju með þennan verðskuldaða titil.