4.flokkur karla og kvenna í Fjölni/Fylki fór á stærsta og flottasta handboltamót í heimi, Partille Cup í Gautaborg dagana 29.júní til 7.júlí. Á mótinu léku rúmlega 25 þúsund keppendur frá öllum heimshornum.
Hópurinn taldi 40 manns og tefldum við fram þremur liðum. Liðin léku í riðlakeppni fyrstu keppnisdagana þar sem okkar lið mættu fimm andstæðingum frá fjölmörgum löndum. Á föstudeginum og laugardeginum léku liðin síðan í útsláttarkeppninni þar sem liðin komust mislangt. Fyrir utan keppnina sjálfa var dagskráin þétt setin. Krakkarnir fóru í vatnsrennibrautargarðinn Skara Sommarland, sáu íslenska U17 ára landslið karla vinna bronsverðlaun á European Open þegar það vann frábæran sigur á Hvít-Rússum í skemmtilegum handboltaleik. Krakkarnir fóru í Liseberg, glæsilegan skemmtigarð í miðbæ Gautaborgar, þeir kíktu í verslunarleiðangur, horfðu á ótal handboltaleiki, léku sér við að hoppa í Kåsjön-vatnið og margt fleira.
Segja má að vikan hafi verið viðburðarík og skilur eftir ótal minningar hjá okkar krökkum.