Á þriðjudagskvöldið var hörku leikur í Hertz deild karla í íshokkí þegar Íslandsmeistarar SA kom í heimsókn í Grafarvoginn. Leikurinn byrjaði með þreifingum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta fór að draga til tíðinda þegar okkar menn skoruðu tvö mörk gegn engu. Í þriðja leikhluta héldum við áfram af sama krafti og bættum við þriðja marki og vorum komin með þægilega forystu. SA er lið sem gefst aldrei upp og settu spennu í leikinn með að lumma inn tveimur mörkum í lokin, það dugði ekki til í þetta skiptið og fyrsti sigur Bjarnarins kominn í hús í vetur. Frábær sigur að baki en það sem mestu máli skiptir að þetta var mjög flottur leikur tveggja góðra liða og flott auglýsing fyrir íþróttina. Þökkum við liði SA fyrir mjög flottan leik.
Það er óhætt að segja að Bjarnarliðið sé talsvert breytt frá síðasta vetri, ekki einungis eru það máttarstólpar liðsins síðustu ár sem eru á sínum stað, ungu strákarnir okkar eru að bæta sig gríðarlega mikið og greinilegt að við eigum mikinn efnivið í Grafarvoginum. Undanfarið höfum við líka fengið til baka gamla Bjarnarmenn sem eru frábærir leikmenn og fengum við t.a.m. tvö mörk frá einum slíkum í þessum leik. Þess fyrir utan erum við búnir að fá í hópinn okkar flotta drengi upprunna úr liði SA ásamt öflugum útlendingum. Hópurinn er orðinn gríðarsterkur og er að smella saman hjá okkur eins og hefur sést á síðustu leikjum liðsins, ekki bara hefur verið gaman að fylgjast með þeim inn á svellinu heldur er einnig áberandi að stemmning innan liðsins er öflug.
Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í vetur með þennan flotta hóp og hvetjum við alla til að koma á leiki liðsins og fylgjast með. Næsti heimaleikur okkar er nk. Þriðjudag kl: 19:45 er við tökum á móti öflugu liði SR sem hefur unnið okkur í tvígang á tímabilinu.
Áfram Fjölnir – Björninn !!