Saga
2003
Núverandi karatedeild Fjölnis fór af stað, starfandi undir almenningsdeild, með hefðbundna kennslu tvisvar sinnum í viku í Hamraskóla í september 2003 og er þar með yngsta karatedeild/félag landsins.
2004
Árið eftir voru æfingarnar fluttar yfir í kjallara í Dalhúsum og vorum við þar með komin heim. Sama ár barst fyrsti titllinn til okkar í formi Reykjavíkurmeistara í kumite stráka. Eftir það hafa titlarnir margfaldast og erum við sannfærð um það að sigurbrautin heldur áfram!
2005
Karatedeild Fjölnis sækir um aðild hjá alþjóðlega karatesambandinu, Kobe Osaka International (KOI), ásamt karatedeild Aftureldingar og Víkings. Seinna á árinu heimsótti KOI karatemeistarinn Steven Morris félögin þrjú.
2006
Iðkendatölur hækka stöðugt og eignast deildin fyrstu svartbeltingana, sem höfðu æft áður hjá Aftureldingu. Í mars fengum við Steven Morris til að heimsækja okkur aftur og til að halda Kata dómaranámskeið fyrir Karatesamband Íslands.
2007
Ljóst var að þetta ár myndi verða viðburðarríkt ár fyrir okkur. Allir þjálfarar Fjölnis tóku þátt í skyndihjálparnámskeiði Rauða Krossins. Fyrstu Fjölnis svartbeltarar sáu dagsins ljós í apríl. Um sumarið fóru keppendur, dómarar og liðstjórar frá Fjölni til Búlgaríu til þess að taka þátt í æfingabúðum, dómaranámskeiði og keppa á heimsmeistaramóti sem haldið var á vegum KOI. Tveir Fjölnis dómarar öðluðust alþjóðleg dómararéttindi. Um haustið flutti byrjendanámskeiðið yfir í Víkurskóla og vorum við nú með æfingar á tveimur stöðum.
2008
Fyrsti íslandsmeistaratitilinn í flokki fullorðinna varð að veruleika á íslandsmeistaramóti í Kata í mars, en þá hafði deildin unnið til 6 íslandsmeistaratitla í barna- og unglingaflokkum, bæði í Kata og Kumite. Enn stærri hópur tók sig til og skellti sér til Ítalíu þetta sumar til þess að taka þátt í æfingabúðum, dómaranámskeiði og að keppa á heimsmeistaramótinu á vegum KOI, eins og árið áður. Karatemeistarinn Steven Morris heimsótti okkur í þriðja sinn í nóvember og tóku tveir Fjölnismenn 1. dan próf hjá honum. Um haustið fluttust framhaldshópar yfir í Víkurskóla og byrjendur yfir í Dalhús.
2009
Árið byrjaði að óskum, enda eignuðumst við fleiri en einn íslandsmeistaratitil á fyrsta mótinu sem haldið var á vegum Karatesambands Íslands. Stór viðburður átti sér stað í apríl þegar að við eignuðumst 6 svartbeltinga á einu bretti og eru þeir orðir fleiri en 10 í deildinni sem þykir mjög gott miðað við aldur hennar. Sensei Steven Morris kom enn til landsins og tók einn Fjölnismaður Junior 1. Dan próf hjá honum.
2010
Við upphaf ársins voru æfingar í byrjendahópum fluttar úr Dalhúsum yfir í baradagalistasalinn í Egilshöllinni. Lítum við á þetta sem viðurkenningu og gæðainnspýtingu fyrir karateþjálfun í Grafarvogi. Til tíðinda dró í febrúar þegar karatedeild Fjölnis varð Íslandsmeistari félagsliða á Íslandsmeistaramóti barna í KATA. Stóri bikarinn verður til sýnis í Egilshöllinni til febrúar á næsta ári. Jafn og þétt eykst þátttaka á unglingamótum enda er stefna okkar að halda vel utan um okkar krakka og láta þeim líða vel í barmi deildarinnar. Í sumar var lítið æft og var keyptur keppnisbúnaður vegna breytinga á keppnisreglunum í unglingaflokkum í kumite, en í september fórum við af stað með látum á ný með tvo barnahópa og einn fullorðinshóp fyrir byrjendur. Rétt fyrir jól voru til sölu sérmerktar peysur og voru góð viðbrögð við því. Deildin telur nú fleiri en 100 iðkendur á hverri önn og þykir það mjög gott með tilliti til karateþjálfunar á Íslandi almennt.