Óæskileg hegðun


SMELLA HÉR –> JAFNRÉTTISMÁL ÍBR

FORDÓMAR

Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar, efnahags eða annarra aðstæðna. Það er því miður staðreynd að á Íslandi verða einstaklingar fyrir fordómum og aðkasti m.a. vegna uppruna síns. Öll þurfum við að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir fordóma í félaginu hvort sem um er að ræða félög, þjálfara, leikmenn, áhorfendur eða aðstandendur. Með samstilltu átaki getum við áorkað miklu og sparkað fordómum út úr félaginu.

EINELTI

SMELLA HÉR –> Sjá kafla 6 í viðbragðsáætlun Íþrótta- og æskulýðsstarfs
Einelti er að ofsækja einhvern með endurtekinni stríðni, illkvittnum uppnefnum, ógnandi, árásargjarnri framkomu og útilokun frá félagsskap. Oft er erfitt að greina einelti en það birtist í flestum hópum í okkar samfélagi. Eineltið birtist t.d. oft í þeirri mynd að einhver er skilin(n) eftir útundan. Einelti veldur jafnan miklum kvíða hjá viðkomandi og vanlíðan. Öll þekkjum við einhvern einstakling sem hefur verið strítt mikið en hefurðu hugsað hvernig þér myndi líða í hans sporum? Einelti á ekki að eiga sér stað innan starfsemi Fjölnis.

ÁREITNI

Áreitni er hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Það er mikilvægt að skilja að áreitni er á ábyrgð gerandans óháð því hvort ætlunin var að særa/móðga eða ekki. Fólk getur upplifað hluti á mismunandi hátt svo það er ekki víst að sama framkoma særi alla sem fyrir henni verða.

OFBELDI

Ofbeldi eru athafnir sem valda öðrum einstaklingi sársauka, andlegum eða líkamlegum, án tillits til þess hvort um er að ræða ásetning eða ekki. Ofbeldi má skipta í líkamlegt, kynferðislegt, efnislegt og andlegt ofbeldi.

KYNBUNDIÐ ÁREITNI OG OFBELDI

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu hans og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir því verður, en einnig hótun um slíkt ofbeldi, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

KYNFERÐISLEG ÁREITNI

Getur verið eitthvað sem er sagt, gert eða jafnvel myndefni sem einstaklingi er sýnt. Sem dæmi má nefna nærgöngular spurningar um einkalíf einstaklings, óumbeðnar athugasemdir um útlit eða klæðaburð og óviðeigandi brandara. Kynferðisleg áreitni getur t.d. falist í því að einstaklingur stingi upp á kynferðislegum athöfnum eða geri kröfu um þær. Kynferðisleg áreitni getur átt sér stað í gegnum síma, smáskilaboð, skilaboð á samfélagsmiðlum eða í tölvupósti. Kynferðisleg áreitni getur líka falist í óþarfri og óviðeigandi snertingu sem er kynferðislegs eðlis, til dæmis að klípa, nudda sér utan í einstakling, reyna að kyssa einstakling eða strjúka honum. Það sem er sammerkt með öllum gerðum kynferðislegrar áreitni er að sá sem fyrir henni verður upplifir hana sem særandi og/eða móðgandi. Það er munur á því að daðra og að áreita kynferðislega. Að daðra felur í sér að athygli er gagnkvæm og er talin jákvæð fyrir báða aðila, öfugt við kynferðislega áreitni, sem er óæskileg kynferðisleg athygli.

KYNFERÐISLEGT OFBELDI

Ofbeldi felur í sér að brotið er gegn rétti annars einstaklings. Kynferðislegt ofbeldi felur í sér misnotkun á öðrum einstaklingi þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Undir kynferðislegt ofbeldi fellur einnig að beita brögðum til að fá einstakling til að taka þátt í kynferðislegri athöfn sem viðkomandi vill ekki taka þátt í eða er ekki nægilega þroskaður til að samþykkja. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga. Kynferðislegt tal, sýni- og gægjuhneigð og að sýna barni klámfengið efni eru dæmi um brot sem fela ekki í sér beina snertingu en flokkast sem kynferðislegt ofbeldi. Hegningarlögin ná yfir alla sem beita kynferðislegu ofbeldi, hvort sem það er með orðum eða hegðun, á almenningssvæði, í viðveru eða nálægt einhverjum sem hefur ekki gefið samþykki, í viðveru eða nálægt börnum undir 18 ára aldri eða gagnvart einstaklingum á hvaða aldri sem er ef þeir eru með þroskahömlun.

HVAÐ ER HEIÐARLEG FRAMKOMA?
Umf. Fjölnir leggur áherslu á íþróttir séu stundaðar á heiðarlegan og uppbyggilegan hátt og hvetur alla sem koma að íþróttinni til að sýna öðrum þátttakendum virðingu. Öguð og jákvæð framkoma ætti að vera markmið sérhvers iðkanda. Verum á varðbergi og hjálpumst að við að láta öllum líða vel í Fjölni.

Siðareglur


Ungmennafélagið Fjölnir vinnur eftir siðareglum ÍBR og UMFÍ. Siðareglur þessar gilda fyrir alla Fjölnismenn sem til lengri eða skemmri tíma starfa fyrir félagið. Siðareglurnar gilda fyrir alla iðkendur, sjálfboðaliða og starfsemi í nafni Ungmennafélagsins Fjölnis jafnt í húsnæði félagsins sem utan þess. Samkvæmt íþróttalögum er óheimilt að ráða til starfa hjá íþróttahreyfingunni einstaklinga sem hafa hlotið refsidóm vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefna eða kynferðisbrota. Þetta gildir bæði um þá einstaklinga sem starfa sem launþegar og sem sjálfboðaliðar.

Siðareglur ÍBR

Siðareglur UMFÍ

Code of Ethics and Personal Conduct

Eyðublað sem veitir heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá

Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni – kynntu þér málið!

Hvað get ég gert?


VIÐBRAGÐSÁÆTLUN ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARFS

Ungmennafélagið Fjölnir hefur unnið að ýmsum málum í tengslum við forvarnarstarf og hefur átti í samstarfi við fjölmarga aðila tengda barna og unglingastarfi. En hér má finna upplýsingingar um verkferla sem hafa verið gefnir út síðastliðin ár og er notast við hjá Fjölni.

Ef óæskileg hegðun kemur upp innan félagsins þá er mikilvægt að taka rétt skref.

Hægt er að hafa samband við tilkynningaraðila félagsins, samskiptaráðgjafa eða Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR).