Átta frá Fjölni í lokahópi yngri landsliða í körfubolta!

Átta frá Fjölni í lokahópi yngri landsliða í körfubolta! 🏀🇮🇸

Þjálfarar yngri landsliða hafa valið lokahópa fyrir komandi landsliðsverkefni sumarsins og er það sönn ánægja að tilkynna að átta leikmenn frá Fjölni hafa verið valdið í lokahópa U15 drengja og stúlkna og U20 karla og kvenna.
U15 liðin keppa á alþjóðlegu móti í Finnlandi í ágúst, á meðan U20 liðin leika bæði á NM og FIBA EM mótum í sumar.
Hér má sjá fulltrúa Fjölnis sem eru í lokahópum landsliðanna í sumar. Við erum ákaflega stolt af iðkendunum okkar og óskum við þeim góðs gengis í komandi verkefnum fyrir landsliðið 💙💛
U15 drengja:
Benóný Gunnar Óskarsson
Ísarr Logi Arnarsson
U15 stúlkna:
Aðalheiður María Davíðsdóttir
Elín Heiða Hermannsdóttir
Helga Björk Davíðsdóttir
U20 karla:
Daníel Ágúst Halldórsson
U20 kvenna:
Bergdís Anna Magnúsdóttir
Heiður Karlsdóttir

Sumarnámskeið 2024

Í sumar fer fram ógrynni af frábærum námskeiðum fyrir börn og unglina á vegum Fjölnis.
Má þar t.d. nefna sumarnámskeið og fjölgreinanámskeið, karatenámskeið, rafíþróttanámskeið í samstarfi við Next Level Gaming o.s.frv.
Nánari upplýsingar um þau námskeið sem komin eru inn er að finna hér:


Páskafrí fimleikadeildar - Gleðilega páska

Dymbilvikan er gengin í garð.
Allir hópar eru með frí þessa viku, nema keppnishópar sem eru með sérstaka dagskrá.

Vonum að allir eiga góða daga í páskafríinu og við hlökkum til þess að sjá ykkur aftur eftir páska.
Dagskrá hefst aftur samkvæmt stundatöflum 2.apríl


Íslandsmót í áhaldafimleikum

Íslandsmót í áhaldafimleikum í fór fram í Ármanni helgina 16. – 17. mars.
Á Íslandsmót í áhaldafimleikum keppir okkar færasta fólk í 1. – 3. þrepi og frjálsum æfingum karla og kvenna.
Fjölnir átti fulltrúa á mótinu og erum við virkilega stolt af okkar fólki.
Til hamingju iðkendur og þjálfarar
Keppendur Fjölnis á Íslandsmóti í áhaldafimleikum:
  •  Elio Mar Rebora – KK unglingaflokkur
  • Sigrún Erla Baldursdóttir – 3.þrep kvk 13 ára og eldri
  • Nicole Hauksdóttir – 3.þrep kvk 13 ára og eldri
  • Sara Björg Brynjarsdóttir – 3.þrep kvk 12 ára og yngri
  • Víkingur Þór Jörgensson – 3.þrep kk, 13 ára og eldri
  • Kristófer Fannar Jónsson – 3.þrep kk, 13 ára og eldri
  • Daníel Barin Ívarsson – 3.þrep kk, 13 ára og eldri
  • Pétur Hrafnsson – 3.þrep kk, 13 ára og eldri

Meðfylgjandi má sjá skemmtilegar svipmyndir.


Fimmtíu krakkar tefldu um fimmtán páskaegg á páskaskákæfingu Fjölnis

Það var að venju fjölmennt á skákæfingu Fjölnis sem nú bar upp á páskaskákæfingu. Skákdeild Fjölnis er alltaf stórtæk þegar verðlaun og happadrætti eru annars vegar. Helmingur þátttakenda gekk því heim með Bónus-páskaegg eða happadrætti frá Góu.
Foreldrar fjölmenntu til aðstoðar og stóðu sig afar vel eins og alltaf. Leiðbeinendur okkar voru nánast allir í kringum Reykjavík Open eða vinnu og Helgi einn til staðar ásamt Aroni Erni.
Ekki náðist að baka skúffuköku að þessu sinni. Þá eru nú góð ráð dýr. Bankað upp á hjá Sælgætisgerðinni GÓU sem brást vel við og nestaði skákkrakkana vel í skákhléi. Takk GÓA.
Allir krakkarnir tefldu í einum flokki og baráttan um páskaeggin var jöfn og spennandi.
Þeir sem unnu páskaeggin 15 voru eftirtaldir eftir vinningsröð:
  1. Emilía Embla 6. bekk
  2. Walter 6. bekk
  3. Óskar 5. bekk
  4. Ómar Jón 5. bekk
  5. Unnur 6. bekk
  6. Helgi Tómas 3. bekk
  7. Sævar Svan 1. bekk
  8. Elsa Margrét 6. bekk
  9. Sigrún Tara 6. bekk
  10. Arthur 5. bekk
  11. Alexander Felipe 3. bekk
  12. Atlas 2. bekk
  13. Elma 6. bekk
  14. Karen Birta
  15. Magnea Mist 6. bekk
Tíu krakkar duttueinnig  í happadrættis-lukkupottinn.
Næsta skákæfing Fjölnis verður 11. apríl.
Gleðilega páska!
Helgi Árnason
formaður skákdeildar Fjölnis


Bryndís Rósa til UC Patriots

Bryndís Rósa Armesto Nuevo tenniskona hjá tennisdeild Fjölnis skrifaði á dögunum undir samning hjá University of the Cumberlands í Kentucky, Bandaríkjunum. Bryndís er að fara út að læra Business Administration og verður úti í fjögur ár en hún mun spila tennis með UC Patriots.

Bryndís segist vera ótrúlega spennt fyrir þessu mikla ævintýri en játar þó að hún sé frekar stressuð því hún veit að hún mun sakna bæði fjölskyldu og vina heima á Íslandi.

Bryndís byrjaði að æfa tennis þegar hún var fimm ára og æfði þangað til hún var 11 ára, þegar hún ákvað að taka sér pásu og einbeita sér að dansi. Þegar hún var 15 ára ákvað hún að byrja aftur í tennis og hefur æft að fullu síðan þá sem hefur greinilega borgað sig en Bryndís fór með landsliðinu í tennis á heimsmeistaramót árið 2022 og 2023.

Við óskum henni innilega til hamingju og velfarnaðar úti!

#FélagiðOkkar


Hanna Jóhannsdóttir nýr formaður UMF Fjölnir

Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir er nýr formaður UMF Fjölnir, fyrst kvenna, en aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn þann 19. mars. Á aðalfund mættu hátt í fjörutíu manns þar sem áttu sér stað bæði líflegar og heitar umræður um starf íþróttafélaga í dag.

 
Hanna er Fjölnisfólki góðkunn en hún hefur setið í stjórnum fimleikadeildar, handknattleiksdeildar og frjálsíþróttadeildar, var formaður meistaraflokksráðs karla í handknattleiksdeild frá 2019-2024 auk þess sem hún var formaður fimleikadeildar frá 2010-2018 og formaður handknattleiksdeildar frá 2018-2019. Auk þess hefur hún átt sæti í aðalstjórn félagsins í rúm 10 ár þar af sem varaformaður frá árinu 2021 og tekur nú við kefli formanns.
 
Hanna tekur við formennsku af Jóni Karli Ólafssyni sem hefur gegnt hlutverki formanns síðan árið 2009 en hann hefur setið í stjórn félagsins í hátt í tuttugu ár.
 
Fjölnir þakkar fráfarandi formanni fyrir ómetanlegt starf í gegnum árin og óskar nýjum formanni til hamingju og velfarnaðar í starfi.


Átta Fjölniskonur í landsliðinu í íshokkí!

Jón Gíslason aðalþjálfari kvennalandsliðs Íslands hefur valið leikmannahópinn sem leikur fyrir Íslands hönd í heimsmeistarakeppni IIHF í byrjun apríl. Leikið verður í Canillo í Andorra 7. til 13. apríl.

Átta frábærar Fjölniskonur eru í hópnum!
🏒 Berglind Rós Leifsdóttir
🏒 Elisa Dís Sigfinnsdóttir
🏒 Elín Darkoh
🏒 Eva Hlynsdóttir
🏒 Kolbrún María Garðarsdóttir
🏒 Laura-Ann Murphy
🏒 Sigrún Agatha Árnadóttir
🏒 Teresa Regína Snorradóttir
Fjölnir óskar þeim öllum til hamingju með valið og góðs gengis úti!

Aðalfundur Fjölnis

Aðalfundur Fjölnis fer fram þriðjudaginn 19. mars kl. 17:30.

Fundurinn verður í Miðjunni, félagsaðstöðu Fjölnis í Egilshöll.

Framboð stjórnarmanna þarf að berast til gummi@fjolnir.is eigi síðar en 15. mars.

Tillögur til breytinga á lögum félagsins, undirritaðar af flutningsmönnum, skulu sendar aðalstjórn félagsins eigi síðar en 15. mars.

Dagskrá aðalfundar verður:

a) Skýrsla stjórnar

b) Reikningar félagsins

c) Lagabreytingar

d) Kjör formanns

e) Kjör stjórnarmanna

f) Kjör skoðunarmanna reikninga

g) Önnur mál

8. grein

Stjórn félagsins er skipuð sjö mönnum og allt að tveimur til vara. Kosning til stjórnar skal fara þannig fram:

a) kosning formanns til eins árs,

b) kosning sex meðstjórnenda til tveggja ára, þannig að þrír eru kosnir á hverju ári,

c) kosning tveggja manna í varastjórn til eins árs.

Varamenn taka sæti í stjórn ef aðalmaður forfallast í sömu röð og þeir eru kosnir. Bjóði meðstjórnandi sig fram til formanns áður en kjörtímabili hans líkur, tekur varamaður sæti í stjórn fram að næsta aðalfundi.

Allir félagsmenn félagsins sem eru fjárráða geta boðið sig fram til formanns. Formaður félagsins getur ekki samtímis verið formaður deildar. Tilkynningar um framboð til formanns og meðstjórnenda félagsins skulu berast framkvæmdarstjóra félagsins minnst 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

Formaður er kosinn beinni kosningu á aðalfundi, en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Stjórn fer með umboð og vald aðalfundar á milli aðalfunda án heimildar til lagabreytinga.

Á aðalfundi skulu einnig kosnir tveir skoðunarmenn reikninga en í þeirra stað má kjósa einn löggiltan endurskoðanda.

Lög Fjölnis má finna hér

https://fjolnir.is/felagid-okkar/log-felagsins/


Fréttabréf Listskautadeildar

Norðurlandamót 

Keppni á Norðurlandamóti fór fram 1.-4. febrúar í Borås í Svíþjóð. Keppendur sem fóru frá Fjölni að keppa fyrir Íslands hönd voru Júlía Sylvía, Lena Rut, Berglind Inga og Elín Katla. 

Berglind Inga og Elín Katla hófu keppnina í Advanced Novice Girls flokki og voru þær báðar að taka þátt á sínu fyrsta Norðurlandamóti. 

Berglind Inga fékk 24,60 stig fyrir stutta prógrammið sitt og 18. sætið. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 43,60 stig. Samanlagt skilaði þetta því Berglindi 68,20 stig og 18. sætinu í keppninni. 

Elín Katla byrjaði á því að fá 28,43 stig fyrir stutta prógrammið sitt og dugði það til 13. sætis eftir þann dag. Í frjálsa prógramminu fékk Elín svo 48,89 stig sem gaf henni 16. sætið með 77,32 heildarstig. 

Lena Rut í Junior Women flokki byrjaði á því að fá 29,01 stig fyrir sitt stutta prógram og skilaði það henni í 19. sætinu. Í frjálsa prógramminu sínu fékk Lena 58,57 stig sem gerir 87,58 heildarstig. Með þessu náði Lena Rut 18. sætinu í sínum flokki. 

Í þetta skiptið var Júlía Sylvía að keppa í fyrsta skipti í flokki Senior á Norðurlandamóti. Í stutta prógramminu fékk Júlía Sylvía 45,28 stig sem skilaði 8. sætinu. Þegar kom að frjálsa prógramminu fékk Júlía 75,70 stig fyrir. Með þessu fékk hún samanlagt 120,98 stig sem skilaði henni 9. sætinu að lokum. Má taka það fram að þetta eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. 

Að móti loknu fór fram sýning (e. Exhibition) þar sem skautaklúbburinn í bænum sá um sýningu og gesta skautarar sem keppt höfðu á Norðurlandamótinu tóku þátt. Júlía Sylvía fékk boð um að taka þátt í sýningunni og stóð hún sig frábærtlega þegar hún skautaði við útgáfu Kaleo af Vor í Vaglaskóg. 

Stjórnarskipti 

Þann 20. febrúar fór fram aðalfundur listskautadeildar Fjölnis. Á þessum aðalfundi fóru fram stjórnarskipti fyrir deildina. 

Nýja stjórn skipa:
Halldóra Hrund Guðmundsdóttir, formaður.
Ólöf Sólveig Björnsdóttir, gjaldkeri.
Guðrún Lillý Eyþórsdóttir, meðstjórnandi.
Gunnar Traustason, meðstjórnandi.
Ingibjörg G. Jónsdóttir, meðstjórnandi.
Tanya Helgason, meðstjórnandi. 

Úr fyrri stjórn minnkaði Gunnar Traustason við sig og fór hann úr formannsstöðu í meðstjórnenda. Einnig steig Tinna Arnardóttir til hliðar úr fyrri stjórn. 

Við þökkum fráfarandi stjórn kærlega fyrir þeirra framlag til listskautadeildarinnar og sjáum ykkur í kringum æfingar og keppnir! 

Vormót ÍSS  

Fyrstu helgina í mars fór fram Vormót ÍSS á Akureyri. Fjölnir fór í hópferð sem heppnaðist vel og skemmtu skautararnir sér mjög vel saman. Alls voru 14 keppendur í félagalínu og 10 keppendur ÍSS sem fóru fyrir hönd Fjölnis norður. 

Allir keppendur lögðu sig hart fram í að gera eins vel og þau gátu og voru félaginu til mikilla sóma á mótinu. Eins og áður að þá er ekki gefið upp í hvaða sæti keppendur lenda í í öllum keppnisflokkum. Í flokkum 6 ára-, 8 ára- og 10 ára og yngri eru ekki gefin upp úrslit en fá allir þátttökuviðurkenningu. 

Í flokki stúlkna 14 ára og yngri náði Lilja Harðardóttir að komast á pall og náði 2.sætinu. Marinó Máni vann flokkinn 15 ára og yngri drengir. 

Í Basic Novice lenti Arna Dís í 1. sæti með 31,85 stig eftir sína keppni. 

Í Advanced Novice voru tveir skautarar sem komust á pall frá okkur. Berglind Inga skilaði stutta prógrammi upp á 27,29 stig og frjálsa prógrammi upp á 42,48. Gerði þetta að verkum að hún fékk 69,77 stig og náði 2. sætinu. Elín Katla náði í 31,65 stig í sínu stutta prógrammi og 57,46 stig í því frjálsa. Með þessu náði hún 89,11 stig og 1.sæti í Advanced Novice 

Í Junior Women keppti Lena Rut. Hún fékk 41,17 stig í stutta prógramminu sínu og bætti við það 73,99 stigum í því frjálsa. Náði hún því 115,16 stigum og 1. sætinu í Junior Women. 

Við óskum öllum sem tóku þátt til hamingju með þá áfanga sem náðust og erum spennt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér hjá okkar flottu skauturum. 

Bikarmeistarar 

Þar sem að okkar skautarar hafa staðið sig mjög vel á þessu tímabili höfum við verið að safna nóg af stigum í bikarkeppni félagana sem er í gangi yfir tímabilið. Efsti skautari frá hverju félagi í hverjum keppnisflokk safnar stigum fyrir sitt félag á ÍSS mótum yfir veturinn.  

Það er skemmst frá því að segja að með öllum þeim árangri sem skautarar Fjölnis náðu yfir veturinn að Fjölnir varð bikarmeistari tímabilið 2023-2024! 

Er þetta annað árið í röð sem listskautadeild Fjölnis nær þeim áfanga að vera bikarmeistari í listskautum og fá bikarinn til okkar í Egilshöllina!  

Eru allir skautarar og þjálfarar mjög vel að þessu komin og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn! 

Sonia Henie Trophy 

Nú um liðna helgi fór fram Sonia Henie Trophy í Osló, Noregi. Voru sjö skautarar frá Fjölni sem kepptu á þessu móti. 

Í Basic Novice voru Arna Dís, Ermenga Sunna og Sóley Björt. Í Advanced Novice voru það Elín Katla, Berglind Inga og Elva Ísey sem tóku þátt og í Junior Women var Lena Rut frá Fjölni. 

Í basic novice var Arna Dís með 34,40 stig fyrir sitt prógramm sem skilaði henni í 5.sæti á mótinu. Ermenga Sunna fékk 32,89 stig og með því 6.sætið. Sóley Björt fékk 16,01 stig og endaði í 25.sætinu. 

Berglind Inga fékk 23,62 stig fyrir stutta prógrammið og 42,87 fyrir frjálsa prógrammið. Skilaði þetta henni 25.sætinu með 66,49 stig. 

Elva Ísey fékk fyrir sitt stutta prógram 19,23 stig og fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 35,65 stig sem skilaði henni 28.sæti með 54,88 stig. 

Elín Katla byrjaði stutta prógrammið með 29,85 stig og fékk hún svo 51,99 stig fyrir frjálsa prógrammið sitt sem skilaði henni 11. sætinu með 81,84 stig. 

Í Junior Women byrjaði Lena með því að fá 34,20 stig í stutta prógramminu. Í frjálsa prógramminu fékk hún svo 73,79 stig sem skilaði henni 18. sæti með 107,99 stig. 

Óskum þeim öllum til hamingju með árangur sinn. 

Framundan hjá deildinni 

Svellið í Egilshöll verður lokað í kringum páskana og því verða ekki æfingar frá fimmtudeginum 28.mars til og með mánudeginum 1.apríl. Byrja því æfingar eftir páska á venjulegu prógrammi þann 2.apríl. 

Helgina 20.-21.apríl mun SR halda mót og mun tilkynning koma von bráðar þar sem óskað er eftir upplýsingum um hverjir vilja taka þátt sem og upplýsingar um greiðslu fyrir það mót.

Mikið líf og fjör hefur verið á æfingum hjá skautaskólanum núna eftir áramót og er gaman að sjá hversu flottir krakkar eru að æfa og hafa gaman hjá okkur í þessum tímum. Það verður svakalega spennandi að sjá hvernig þessir krakkar munu vaxa og dafna í íþróttinni og vonum við eftir því að sem flest af þeim muni taka þátt í vorsýningunni okkar. 

Nú fer allt að fara á fullt að undirbúa vorsýninguna okkar í Fjölni en hún fer fram sunnudaginn 26. maí á skautasvellinu í Egilshöll. 

Bráðlega verður send út tilkynning á forráðamenn þar sem að hægt er að skrá þá skautara sem að vilja taka þátt í sýningunni. Mun það vera krafa á þá skautara sem ætla sér að taka þátt að þau séu skráð á ákveðið margara æfingar til að ná öllum breytingum og öllu sem kemur að sýningunni. En þessar upplýsingar munu koma fram í skráningarpóstinum sem verður sendur út. 

Einnig er verið að undirbúa sumarnámskeið á svellinu og er planið að vera 3 vikur í júní. Þegar allar upplýsingar eru komnar til okkar til að vinna úr að þá verður send út tilkynning með öllum upplýsingum.