Starfssvæði Fjölnis og framtíðarþróun


Grafarvogur afmarkast af ósum Elliðaár í vestri, samnefndum vogi í suðri og Vesturlandsvegi í austri, sveitafélagsmörkum að Mosfellsbæ og sjó. Þar búa um 18 þúsund manns á rúmlega sex þúsund heimilum. Til Grafarvogshverfis teljast Hamrar, Foldir, Hús, Rimar, Borgir, Víkur, Engi, Spöng, Staðir, Höfðar, Bryggjuhverfi, Geirsnef, Gufunes og Geldinganes. Grafarvogur dregur nafn sitt af bænum Gröf, sem nú er í eyði en stóð innst við hann, við Grafarlæk fyrir sunnan Keldur. Í Höfðahverfi eru atvinnusvæði sem talin eru hafa mikla þróunarmöguleika, einkum í vesturhlutanum. Land Keldna og Keldnaholts eru skilgrind sem framtíðaruppbyggingarsvæði, einkum fyrir atvinnuhúsnæði en ekki fyrir íbúðir. Samkvæmt nýju aðalskipulagi Reykjavíkur mun íbúðum innan nú- verandi skólahverfa fjölga um 550 á næstu árum.

En í borgarhlutanum í heild er horft fram á fjölgun íbúða um 3.350 þegar til lengri tíma er litið. 

Grafarvogur er stórt hverfi bæði hvað varðar íbúafjölda en einning landsvæði. Í hverfinu er mikil hverfisvitund og líta margir íbúar á Grafarvog sem einskonar bæ innan borgarmarkanna.

Það sem einkennir hverfið er mikil nánd við náttúruna. Þar ber helst að nefna svæði eins og Gufunesið, Grafarvoginn og ánna Korpu. Hverfið markast einnig af langri og fallegri sjávarsíðu sem umlykur hverfið að stórum hluta. Íbúarnir nýta sér óspart þessar náttúruperlur til útivistar og íþróttaiðkunar.

Tekið úr grein í Morgunblaðinu 17 febrúar 2015.

Október 2017​

Hverfið okkar í dag hefur tekið miklum breytingum á síðusta áratug og það er enn frekari áframhaldandi þróun og vöxtur á næsta áratug.  Allt eru þetta spennandi og krefjandi verkefni fyrir Ungmennafélagið Fjölnir sem er eitt fjölmennasta íþróttafélag landsins.  Við erum í uppbyggingu á félaginu og þarf hún að taka mið að því sem gerist hjá okkur á næstu árum, það er mikil fjölgun barna og ungmenna á okkar svæði sem er nauðsynlegt til að viðhalda vexti í félaginu og nýta okkar frábæru aðstöðu í Egilshöll og í Dalhúsum.  Mikil hagræðing er fyrir borgina að nýta betur þessi mannvirki vel ásamt nýjum mannvirkum sem verða byggð fyrir félagið og styðja við okkar öfluga félag til að mæta þörfum núverandi íbúa og nýrra sem flytja munu hingað á næstu árum.

Í dag er staðan svona á okkar svæði sem er Grafarvogur og Bryggjuhverfi,

Íbúar í Grafarvogi í dag eru 18.041 og hverfið er 14,5 ferkm.

Til Grafarvogshverfis teljast Hamrar, Foldir, Hús, Rimar, Borgir, Víkur, Engi, Spöng, Staðir, Höfðar, Bryggjuhverfi, Geirsnef, Gufunes og Geldinganes.​

Göngu og hjólastígar í hverfinu með bundnu slitlagi eru alls 152 km, auk gangstétta

Um 800 félagar eru í Korpúlfum, félagi eldri borgara í Grafarvogi.  Korpúlfar eru fjölmennustu samtök eldri borgara í Reykjavík og Íslandi og hefur okkar samstarf verið að aukast jafnt á þétt.

Sex grunnskólar eru í Grafarvogi í dag og nemendur í þeim eru um 2160.  Þeim hefur fækkað þónokkuð á síðustu árum og á síðasta áratug hefur þeim fækkað um 1000 nemendur sem sýnir hvað verkefni okkar er krefjandi en nú má ætla að þeim fjölgi um 1000  á næstu árum.  Leikskólar í Grafarvogi eru 9 talsins og í þeim eru 807 börn í dag.  Leikskólastarfið í Grafarvogi þykir sérlega öflugt og gott og er án efa ein af skrautfjöðrum hverfisins.

Þannig að framtíðin er björt hjá okkur.

Mesta þétting byggðar í Reykjavík á næstu áratugum eða til ársins 2030 verður við Ártúnshöfða og Elliðavog.  Bryggjuhverfið mun stækka á landfyllingum og á þessu svæði verða byggðar 3.200 íbúðir á næstu 12 árum eða fram til ársins 2030.  Þetta þurfum við að búa Fjölni undir að geta sinnt þessum nýju íbúum vel með sterkum innviðum í félaginu og fullnægjandi aðstöðu.

Íbúar á þessu nýja svæði verða um 7.400 og með uppbyggingu þessa nýja svæðis er gert ráð fyrir 1.500 nýjum störfum.  Á svæðinu er gert ráð fyrir tveimur nýjum grunnskólum til frambúðar og bætast þeir við okkar sex grunnskóla sem fyrir eru í Grafarvogi.

Þétting byggðar á Fjölnissvæði á næstu árum eru,

​Bryggjuhverfi II  280 íbúðir
Gufunes  350 + 650 = 1.000 íbúðir
Móavegur við Spöngina 156 íbúðir
Keldum  480 íbúðir
Elliðaárvogur 4.500 íbúðir

Af þessu má ljóst vera að uppbygging Ungmennafélagins Fjölnis þarf að vera mjög öflug og taka mið af þeirri þróun sem Reykjavíkurborg hefur skipulagt á næstu árum.  Ekki þarf að fjölyrða um það að hér vill m.a. ungt fólk búa með börnin sín, enda umhverfið frábært og innviðir margir til staðar ásamt öflugu og vaxandi Ungmennafélaginu Fjölni sem verður 30 ára á næsta ári.  Við hlökkum til að takast á við framtíðina með borginni og fólkinu okkar.

Heimildir:

Reykjavíkurborg og Grafarvogsblaðið