Flottur hópur Fjölnisstúlkna hélt norður á Akureyri um helgina til að keppa á Haustmóti ÍSS og Frostmótinu. Langt er síðan síðasta mót var haldið þar sem öll mót féllu niður á vormánuðum vegna Covid. Stúlkurnar mættu því spenntar til Akureyrar.

Frostmót
Sex Fjölnisstúlkur tóku þátt í 4 keppnisflokkum á Frostmótinu sem haldið var á laugardeginum. Perla Gabríela Ægisdóttir keppti í 8 ára og yngri, Arna Dís Gísladóttir, Selma Kristín S. Blandon og Una Lind Otterstedt í 10 ára og yngri, Líva Lapa í 12 ára og yngri, og Kayla Amy Eleanor Harðardóttir í hóp 14 ára og yngri. Ekki voru veitt verðlaun fyrir 8 og 10 ára og yngri. Stelpunum gekk mjög vel og voru ánægðar með sitt framlag eftir daginn. Kayla skautaði gott prógram og sigraði í flokknum 14 ára og yngri.

Haustmót ÍSS
Á Haustmóti ÍSS voru 9 Fjölnisstúlkur í 6 keppnisflokkum. Allar voru þær að skipta um keppnisflokk eða koma nýjar inn á ÍSS mót. Á laugardeginum hófst keppni í Basic Novice sem var stærsti flokkur mótsins. Þar keppti ein Fjölnisstúlka, Elva Ísey Hlynsdóttir. Hún skautaði prógramið sitt af nokkru öryggi, fékk 24,18 í einkun og hreppti hún 4. sætið aðeins 0,42 stigum á eftir næsta keppanda. Því næst hófst keppni í Advanced Novice og Junior þar sem keppendur skautuðu stutta prógramið sitt. Tanja Rut Guðmundsdóttir í Advanced Novice var önnur á ísinn, skautaði fínt prógram og fékk 22,12 stig og var í 2. sæti eftir fyrri daginn. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Lena Rut Ásgeirsdóttir kepptu síðan í flokki Junior. Júlía Sylvía fékk 35,51 stig og var í 3. sæti eftir fyrri daginn en Lena Rut fékk 24,00 stig og var í 5. sæti.

Á sunnudeginum hófst keppni í Chicks þar sem Ermenga Sunna Víkingsdóttir skautaði vel í frumraun sinni á ÍSS móti. Þær Arína Ásta Ingibjargardóttir og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir kepptu síðan í Cubs. Ekki voru veitt verðlaun fyrir keppendur í Chicks og Cubs en allir keppendur fengu þátttökuviðurkenningar og voru þær mjög ánægðar með daginn.

Því næst var keppt í flokki Intermediate Novice og þar kepptu Sandra Hlín Björnsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir. Sandra Hlín fór fyrst á ísinn og nældi hún sér í 22,63 stig og hafnaði í 2. sæti. Andreu Marín gekk nokkuð vel með sitt prógram, fékk 17,02 stig og lenti í 4. sæti.

Að lokum var keppt í frjálsa prógraminu í Advanced Novice og Junior. Tanja Rut fékk 36,81 stig fyrir frjálsa prógramið og var samanlagt með 58,93 stig og endaði í 2. sæti í Advanced Novice. Lena Rut fór fyrst á ísinn í flokki Junior, skautaði ágætis prógram sem hún fékk 47,04 stig fyrir, var samanlagt með 71,04 stig og var í 5. sæti. Júlía Sylvía reyndi í fyrsta skipti á móti við þrefalt Salchow sem henni tókst því miður ekki að lenda í þetta sinn, en skautaði svo fínt frjálst prógram sem hún fékk 68,82 stig fyrir, var samanlagt með 104,33 stig og var í 3. sæti í flokki Junior.

Eftir fínt gengi stúlknanna er Fjölnir í 2. sæti í Bikarmótaröðinni eftir fyrsta mót vetrarins.