Kæra Fjölnisfólk.

Í Grafarvogi fer fram mjög öflugt íþróttastarf svo eftir er tekið víða um land. Knattspyrnudeildin fer þar einna fremst á meðal. Mikil áhersla er lögð á að allt barna- og unglingastarf Fjölnis skili sér í frambærilegum ungmennum og því til staðfestingar má benda á þær metnaðarfullu ráðningar á yfirþjálfurum knattspyrnudeildar sem ráðist var í nýverið í þeim Gunnari Má og Arngrími Jóhanni (Addi). Gunnar Már mun leiða karlastarfið á meðan Addi verður yfir kvennastarfinu. Báðir eru þeir hámenntaðir í knattspyrnufræðunum og margra ára þjálfarareynslu. Ég er sannfærður um að þessi samvinna mun leiða gott af sér og við munum sjá þess merki fljótlega. Þetta er þó í grunninn langtímaplan í því að styrkja enn frekar þjálfun okkar iðkenda á öllum sviðum, allt frá þeim yngstu og upp úr bæði hjá stelpum og strákum, sem við hlökkum til að kynna fyrir ykkur betur á næstu misserum.

Stór hluti í starfsemi íþróttafélaga er að eiga lið í fremstu röð. Við Fjölnisfólk höfum átt lið meðal þeirra bestu, í efstu deild karla, í samtals átta tímabil, fyrst árið 2008, og nú í sex af síðastliðnum sjö tímabilum. Það síðastnefnda er meira en mörg félög geta sagt þrátt fyrir að sum hver þeirra hafa verið til í meira en 100 ár!

Þetta tímabil, þrátt fyrir að því sé hvergi nærri lokið, fer í sögubækurnar fyrir margar sakir; sem dæmi þá er ólíklegt að það verði einhvern tímann aftur svona miklar raskanir á mótahaldi. Það eitt og sér gæti þó, til lengri tíma litið, gefið knattspyrnuhreyfingunni ákveðin svör um hvort og með hvaða hætti er hægt að lengja Íslandsmót framtíðarinnar – eins og rætt hefur verið um í mörg ár. Þess fyrir utan höfum við líklega öll heyrt orð eins og frestun, áhorfendabann og sóttkví oftar en við kærum okkur um. Hinn virti íþróttablaðamaður Víðir Sigurðsson gefur út bók á hverju ári um íslenska knattspyrnusumarið. Hver veit, kannski mun bókin í ár, Íslensk knattspyrna 2020, vera líkari skáldsögu en sagnariti þegar litið verður til baka eftir einn áratug eða svo. En hvað um það.

Það hefur verið á brattann að sækja á þessu keppnistímabili hjá báðum okkar meistaraflokksliðum og óþarfi að fara í einhverjar grafgötur með það. Það er hins vegar mikilvægt að það komi skýrt fram að það er engan bilbug á okkur sem stöndum að félaginu að finna. Ég segi það alveg óhikað og kokhraustur; Fjölnir er demantur í íslensku íþróttalífi. Önnur félög óttast það sem við getum orðið. Ég er vitanlega langt frá því að vera hlutlaus en það er engu að síður mín persónulega skoðun að það sé hagur íslenskrar knattspyrnu að Fjölnir sé með lið í efstu deild. Þar eigum við heima og þar ætlum við að vera um ókomin ár. Við erum stolt af báðum okkar meistaraflokksliðum. Í þeim erum við með hæfileikaríka og öfluga leikmenn sem eru fullfærir um að leggja á sig þá vinnu sem til þarf og sækja hagstæð úrslit. Tveir sigrar í næstu leikjum t.a.m. setur mótin í háaloft og allt getur gerst!

Til þess þurfum við þó allar hendur upp á dekk. Það er nauðsynlegt að leikmenn, forráðamenn liðsins, stuðningsmenn og Grafarvogsbúar taki höndum saman og hjálpist við að tryggja sú verði raunin. Það er hægt að gera með því að leggja sitt af mörkum, t.d. með því að styrkja félagið með beinum fjárframlögum, gerast meðlimur í Baklandinu (sjá nánar hér https://fjolnir.is/knattspyrna/baklandid/), tala félagið upp á samfélagsmiðlum og/eða mæta á viðburði félagsins (þegar Covid og Þórólfur leyfa að sjálfsögðu).

Að lokum vil ég ítreka að með samvinnu og samstilltu átaki ætlum við að halda áfram að sækja markvisst fram og bæta í alla umgjörð og aðstöðu deildarinnar. Á þeim nótum má t.d. benda á alla þá flottu og góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin á umgjörð meistaraflokkana á undanförum 6-12 mánuðum með tilkomu splunkunýrra búningsklefa í Egilshöll, nýtt sjúkraherbergi í Dalhúsum, fjárfesting í myndavélum, GPS vestum og öðrum búnaði. Allt þetta og meira til; við ætlum hvergi að slaka á. Auðvitað er það svo að við getum bætt okkur á ýmsum sviðum en jafnframt megum við vera mjög stolt af okkar starfi og því sem hefur verið áorkað hingað til og vera óhrædd að tala út á við um það sem vel er gert. Fólkið (sjálfboðaliðinn) er hjartað í félaginu og eru þeir eitt af því mikilvægasta sem við eigum og auðvitað styrktaraðilarnir okkar, án þeirra kæmust við ekki langt.

Ég hvet okkur öll til að standa saman, nú sem fyrr. Látum ekki blekkjast af tímabundinni blindhæð. Hún er ekki áfangastaðurinn.

Áfram Fjölnir!

Kolbeinn Kristinsson,
Formaður knattspyrnudeildar Fjölnis