Reykjavíkurleikarnir hófust á föstudaginn en þá kepptu Fjölnisstúlkur í flokkum Chicks, Cubs, Intermediate Novice og Advanced Novice. Þetta er eina mót ársins hér á landi þar sem þær keppa við iðkendur frá öðrum löndum og er þetta mjög góð reynsla fyrir þær 

Ungu stúlkurnar okkar í Chicks og Cubs hófu mótið og stóðu sig mjög vel. Sumar eru farnir að reyna við tvöföld stökk og eru að bæta erfiðleikastigum á pírúettana sína. Það hafa verið stöðugar framfarir hjá þessum ungu stúlkum í vetur. 

Rakel, Tanja og Lena kepptu allar í Intermediate Novice. Tönju hefur gengið vel í allan vetur en á þessu móti voru smá erfiðleikar með tvöföldu stökkin og endaði hún í 6. sæti á mótinu. Rakel bætti sitt persónulega stigamet og var í 5. sæti. Lena var með 26.87 stig sem skilaði henni 3. sæti í flokknum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim stelpum. 

Júlía Sylvía var í 8. sæti eftir stutta prógramm á föstudeginum. Á laugardeginum skautaði hún mjög vel og bætti persónulegt met í langa prógramminu og endaði í 6. sæti í flokknum Advanced Novice. 

Á laugardeginum kepptu Junior stelpur svo í stutta prógramminu. Hildur var fyrst af Fjölnisstelpunum, skautaði vel og bætti sitt persónulega stigamet í stutta prógramminu. Herdís var næst, lenti öllum stökkunum og var mjög nálægt sínum besta árangri í vetur. Helga átti líka fínan dag og lenti hún flottri stökksamsetningu strax í byrjun prógrammsins. Þær kepptu síðan í frjálsa prógramminu á sunnudeginum. Hildur lenti í smá erfiðleikum með nokkur stökk í frjálsa prógramminu en samanlögð stig henni þau næsthæstu í vetur. Helga átti annan fínan dag og hóf prógrammið sitt á tvöföldum axel og flottri tvöfaldri stökksamsetningu. Herdís var síðust þeirra og átti hún frábæran dag þar sem hún bætti persónulegt stigamet í frjálsu prógrammi og samanlögð stig hennar voru 95.79. Með þessum árangri náði hún viðmiðum afrekshóps og keppir því á Norðurlandamótinu eftir 2 vikur. Til hamingju með frábæran árangur á Reykjavíkurleikunum 2020!